Fyrir rúmri viku sá ég því fleygt á spjallþræði á netinu að hlutföll kynjanna í sjónvarpsþáttum Egils Helgasonar, Kiljunni, væru 85 karlar á móti 15 konum. Þetta reyndust rangfærslur en með því að telja saman alla rithöfunda og þá sem fjallað er um í fræðiritum og ævisögum, hvort sem um er að ræða nýjar skáldsögur eða forn fræðirit (sem voru skrifuð af körlum um karla), fást hlutföllin 77 karlar á móti 23 konum. Þetta þykir hroðalegt, í ljósi þess að 40% meðlima rithöfundasambandsins eru konur.
Fjöldi kvenna í rithöfundasambandinu segir þó lítið um fjölda útgefinna verka. Árið 2010 komu út 72 skáldverk, 50 eftir karla 22 eftir konur. Sem merkir að 30% nýútkominna bóka voru eftir konur. Ég ætla ekki að fara út í djúpar pælingar um ástæður þess að konur gefa út færri bækur en karlar en bendi á að hlutfall blaðagreina eftir konur er svipað. Konur virðast ennþá skrifa minna en karlar.
þessu hefur verið svarað með því að raunveruleg kynjahlutföll rithöfunda í fortíð og nútíð skipti ekki öllu máli, það séu einfaldlega jafnréttislög í gildi í landinu. Ég finn enga grein í jafnréttislögum sem gerir ráð fyrir kynjakvótum í sjónvarpsþáttum og ef þetta er túlkun manna á 24. grein laganna þá hlýtur þetta að eiga við alla menningarstarfsemi og afþreyingu. Samkvæmt þessari túlkun væri vafasamt að halda torfærukeppni nema helmingur keppenda væru konur. Ríkisskólar gætu ekki boðið upp á saumanámskeið nema helmingur þátttakenda væri karlkyns. Og ef hluti vandans er sá að karlar séu of mikið til umfjöllunar í bókmenntum, ættum við þá að setja kynjakvóta á rithöfunda? Skikka Arnald til að láta Elínborgu í aðalhlutverk í annarri hverri bók? Banna útgáfu á ævisögu einhvers karls, þar til komin er út sambærileg saga konu?
Það er óþolandi ef kyn rithöfundar ræður því hvort bókin fær umfjöllun eður ei og ef sú er raunin væri rétt að bæta úr því. Þetta virðist samt ekki vera alveg svona einfalt. Ég hef spurt hvað eftir annað á umræðuþráðum á fb og blogginu, hvaða konur hafi verið sniðgengnar. Ég hef fengið 2 svör. Barnabókahöfundar og Guðrún frá Lundi.
Barnabækur eru ekki til umfjöllunar í Kiljunni. Konur skrifa barnabækur og barnabækur eru yfirleitt ekki hátt skrifaðar. Það eru ekki barnabækur sem fá íslensku bókmenntaverðlaunin eða Nóbelinn. Þær barnabækur sem eru verðlaunaðar fá annaðhvort sérstök barnabókaverðlaun eða verðlaun í flokki barnabóka. Þetta á reyndar við um alla barnamenningu.
Ég tek undir það sjónarmið að menningarvitar ættu að fjalla meira um barnamenningu og verk sem eru ætluð börnum. Ég virði Agli það þó til vorkunnar að það viðhorf að barnabækur séu ekki bókmenntir er ríkjandi og frekar ósanngjarnt að ásaka hann um kvenfyrirlitningu vegna þess. Kynjahlutföllin í Kiljunni endurspegla nefnilega það almenna viðhorf að barnamenning sé ekki ‘alvöru’. Þau segja hinsvegar ekki neitt um karlrembu Egils Helgasonar.