Umræðan um Kiljuna og karlrembuna hefur ekkert verið sérlega áhugaverð. Við höfum eytt meira púðri í að þrasa um tölfræði en finna svör við mun áhugaverðari spurningu;hversvegna birtist minna af skrifum kvenna en karla? Hermann Stefánsson veltir upp nokkrum spurningum þar að lútandi í umræðukerfinu mínu: og eins og kemur fram í þessum pistli virðist skýringa ekki að leita í slæmu aðgengi kvenna að fjölmiðlum.
Ég vildi gjarnan að veruleikinn væri annar en hann er, að konur væru jafn afkastamiklir pennar og karlar. Ég væri alveg til í að verk fyrri tíða skáldkvenna væru vinsælli (eða nútíma skáldkvenna ef því er að skipta, ég á t.d. sjálf marga tugi ágætra og sönghæfra kvæða sem enginn starfandi tónlistarmaður lítur við) en staðreyndin er sú að við eigum EINA skáldkonu sem almenningur þekkir eitthvað að ráði. Það er Margrét Jónsdóttir og eina ástæðan fyrir því að hún öðlaðist vinsældir, er sú að kvæði hennar voru og eru sungin (við lög eftir karla.)
Svo er eitt sem rek mig á í þessari umræðu allri. Bent er á að konum sé ekki boðið í þáttinn. Tvær hafa verið nefndar og hvorug þeirra hefur verið starfandi rithöfundur á þeim tíma sem Kiljan hefur verið á skjánum. Ég var svo ‘heppin’ að fá umfjöllun í þættinum. En vitiði hvað? Ég beið ekki eftir að mér yrði boðið. Við Ingólfur fórum sjálf á stúfana og sýndum fjölmiðlamönnum bókina í von um að einhver fengi áhuga á henni. Og ég skal bara alveg viðurkenna að mér fannst það mjög óþægilegt, þótt ég sé ekkert óframfærin. Ég hafði m.a.s. svo miklar efasemdir um réttmæti þess að trana mér fram að ég byrjaði daginn á því að kasta upp af kvíða, ekki af því að ég óttaðist höfnun, heldur af því ég var hædd um að vera áltin frek. Ingó efaðist hinsvegar aldrei um að þetta væri sjálfsagt og líklega hefði ég ekkert gert þetta án hans, heldur beðið eftir að fjölmiðlar hefðu samband að fyrra bragði. Hefði Kiljan fjallað um bókina án ábendingar? Það er ég ekkert viss um. Ég er hinsvegar viss um að ég er ekki eini rithöfundurinn sem hefur haft samband við fjölmiðla að fyrra bragði og ég er líka viss um að þar eru karlar í meirihluta.
Getur verið að konur hafi ríkari tilhneigingu en karlar til þess að sitja penar og prúðar og bíða þess að þeim sé boðið til umræðunnar? Getur verið að það sé stærra vandamál en karlremba fjölmiðlamanna?
Mynd: Ryan McGuire, Pixabay