Mér skilst að stór meirihluti kvenna taki súkkulaði fram yfir kynlíf. Reyndar líka facebook, farsíma og ýmislegt annað en höldum okkur við súkkulaðið í bili.

 

Það eru margar ástæður til þess að taka súkkulaði fram yfir kynlíf

  • Súkkulaði kemur ekki aftan að þér. Ef þú hefur fundið tegund sem hentar þér þá mun hún bragðast eins á morgun. Manneskjur hafa hinsvegar tilhneigingu til að vera með allskonar vesen og uppátæki fyrir utan það að útlit, líkamsþefur og fleiri þættir sem hafa áhrif á aðdráttarafl breytast eftir aðstæðum og með tímanum.
  • Þú getur borðað súkkulaði nánast hvenær sem þig langar í það, jafnvel í vinnunni og á almannafæri.
  • Enginn hneykslast á því þótt þú prófir nýja tegund.
  • Þú getur borðað súkkulaði í hvaða félagsskap sem er, án þess að eiga á hættu að fá á þig einhvern stimpil út á það.
  • Þú getur gefið og þegið súkkulaði, án þess að neinn álíti það fela í sér skuldbindingu um að gefa engum öðrum súkkulaði.
  • Þótt þú gefir einhverjum súkkulaði einu sinni, ætlast hann ekki til þess að þú gerir það aftur.
  • Þú særir yfirleitt ekki fólk með því að afþakka súkkulaði og ef þú lendir í einhverjum ofurviðkvæmum, geturðu alltaf gert þér upp fitukomplexa.
  • Ef þú ákveður að opna konfektbúð verða viðskiptavinir þínir sennilega ekki ofsóttir.
  • Þú getur borðað súkkulaði án þess að allt fari á flot (nema þú hafir mjög lítinn munn og sért að borða rosalega stóran koníakshring.)
  • Þú þarft ekki að bíða með að borða súkkulaði þar til börnin eru sofnuð.
  • Konfektfylllingar bragðast í öllum tilvikum betur en sæði. (Það er góð ástæða fyrir því að smokkar með súkkulaðibragði eru söluvænni vara en súkkulaði með sæðisbragði.) 
  • Það er hvorki tiltakanlega hættulegt né ólöglegt að borða súkkulaði undir stýri.
  • Ef þú þarft að borga fyrir það þá er súkkulaðið ódýrara.

Og svo þarf eitt ekki að útiloka annað

    Ég borða súkkulaði oftar en ég stunda kynlíf. Samt finnst mér kynlíf alveg ljómandi gott. Mig bara langar oftar í súkkulaði auk þess sem því fylgir minna vesen. Maður þarf t.d. ekki upplýst samþykki súkkulaðis til að læsa í það tönnunum. Einhverntíma var ég spurð hver niðurstaðan yrði ef ég þyrfti að velja á milli þess að lifa án kynlífs eða án þess að bragða súkkulaði. Ég hikaði. Fólk lifir orðið svo helvíti lengi og let’s face it, það er ekki mikið um fjörugt ástalíf á elliheimlinu. Fólk gúllar hinsvegar í sig súkkulaði fram í andlátið.

    Á endanum valdi ég kynlífið en það var ekki auðvelt val og stærsta ástæðan fyrir því að ég setti það ofar var sú að ég treysti mér ekki almennilega til að greina hvar það hefst og hvar það endar. Flokkast snerting sem ekki þætti viðeigandi milli náinna ættingja sem kynlíf? Dans? Augnsamband? Ég sleiki ekki konur eða karlmenn sem ég hef engan áhuga á með augunum á sama hátt og mann sem ég ætla að sofa hjá. Ef við tökum Bill Clinton á þetta er það kannski ekki svo flókið. Það að vera með kjánaprik í klofinu er út af fyrir sig ekki svo merkileg athöfn að ég gæti ekki lifað án þess og satt að segja veitist mörgum konum auðveldara að fljúga á kústskafti. Flestir hinsvegar hafna þeirri clintonsku að kokreið inni í kústaskáp flokkist ekki sem kynlíf og þótt ég geti vel lifað án þess líka þá vildi ég ekki fara á mis við ýmislegt annað sem ég fæ ekki hjá vinkonum mínum eða systkinum. En þá erum við líka að tala um allt lífið og heil mannsævi á kynlífs er ekki spennandi tilhugsun. Svona á venjulegum fimmtudegi er aftur á móti líklegra að ég myndi þiggja kakóbolla ef einhver lítt kunnugur hefði samband við mig á facebook og bæði mig um að hitta sig, annaðhvort til að ríða eða drekka heitt súkkulaði. Súkkulaði skiptir mig semsagt yfirleitt að minnsta kosti jafn miklu máli og kynlíf, meira máli ef eitthvað er. Ég yrði mjög leið ef ég fengi ofnæmi fyrir súkkulaði.

    Það er samt tveir ókostir við súkkulaði. Það er fitandi í óhófi og svo er það þetta. Þrælahald semsagt. M.a.s. barnaþrælkun. Ekki fullorðið fólk sem tekur upplýsta ákvörðun um að vinna erfitt starf fyrir lág laun og má hætta hvenær sem því hentar þótt það hafi kannski ekki „raunverulegt“ val þegar tillit er tekið til aðstæðna, heldur börn sem eru barin til vinnu á daginn, læst inni á næturnar og misþyrmt ef þau reyna að flýja.

    Styðjum við þrælahald?

    Já við gerum það. Þegar við kaupum algengar neysluvörur styðjum við stundum þrælahald, langoftast ósiðlegt arðrán, stundum aðra óhæfu og yfirgang gagnvart fólki sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Við getum sniðgengið eitt og eitt fyrirtæki en ég fullyrði að það er ekki hægt að vera siðlegur neytandi í því samfélagi sem við búum í. Jafnvel þótt við værum í fullri vinnu við að skoða feril þeirra fyrirtækja sem eru á markaðnum, kæmumst við ekki hjá því að styðja eitthvað sem orkar tvímælis.

    Einhverju sinni fór ég með frænda mínum þá tæpra 14 ára í matvörubúð. Við ætluðum að kaupa kókómalt en þegar hann setti Nesquick í körfuna bað ég hann að taka frekar aðra tegund. Sagði honum að ég vildi frekar að komast hjá því að versla við þetta fyrirtæki og útskýrði hversvegna. (Játa að ég kaupi einstaka sinnum Nestle vörur og reyni ekki að afneita hræsninni.) Honum fannst það mjög áhugavert og nokkrum dögum síðan bað hann mig að skrifa fyrir sig lista yfir öll vond fyrirtæki svo hann gæti sniðgengið þau. „Elskan, það er ekki hægt“ sagði ég, „Það eina sem þú getur raunverulega gert er að kaupa ekkert sem þig vantar ekki nauðsynlega“. Á hálfri mínútu eyðilagði ég hugsjón hans um að verða góður neytandi. Eina leiðin til þess er sú að vera búðarþjófur að atvinnu og það er eiginlega ekki framtíðarplan sem ég get mælt með.

    Í kapítalísku hagkerfi

    Eins og kapítalisminn er í grunninn ágæt hugmynd, þá er nú reyndin sú að kapítalískt hagkerfi býður ekki beinlínis upp á mannúðarhyggju og hófsemi. Við verðum ekki móralskir neytendur á meðan við búum við kapítalisma. Þrælahald mun tíðkast og stóriðjufyrirtæki munu stunda landtöku, spilla vatnsbólum og hrekja fólk á vergang. Við breytum því ekki með því að kaupa ekki álpappír eða versla ekki við Nestle, ekki á meðan við neyðumst til að nota bíla (öll áfyrirtækin eru ógeð) og flestir súkkulaðiframleiðendur skipta við þrælahaldara.

    Sniðganga gæti auðvitað verið gífurlega öflug baráttuaðferð EF almenn þátttaka fengist en trúið mér það er ekki að fara að gerast. Ísraelsmenn hafa sölsað undir sig öll helstu appelsínuræktarsvæði Palestínu. Palestínskt fyrirtæki gerði fyrir nokkrum árum tilraun til að framleiða appelsínusafa en var refsað með svo háum tollum að varan varð allt of dýr til að vera samkeppnishæf. Ég veit ekki hvort það fyrirtæki hangir á horriminni enn eða hvort það fór á hausinn en það var allavega allt útlit fyrir að eigendurnir gæfust upp 2009. Safinn var eingöngu fáanlegur í nokkrum smáþorpum af því að kaupmenn treystu sér ekki til að taka við vörunni og hefðu ekki getað selt hana með sanngjarnri álagningu. Hinn almenni Palestínumaður keypti frekar ísraelska safann af því að hann var a) fáanlegur og b) svo miklu, miklu ódýrari. Viðskiptavinir fyrirtækisins voru aðallega fjölskylduvinir og aktivistar sem styðja málstað Palestínumanna. Sniðganga já, góð hugmynd en kommon það er ekki einu sinni hægt að fá nema örlítið brot Palestínumanna til að sniðganga ísraelskan appelsínusafa, og það er ekki af því að fólki viti ekki hversu miklu máli það skiptir heldur af því að mannveran er nautnaseggur og sá sem vill appelsínusafa núna, mun ekki bíða í 30 ár þar til búið er að koma á réttlæti.

    Og hvað á þá að gera til að uppræta barnaþrælkun kakóbaunaræktenda? Sniðganga hefur ekki skilað mjög miklu (kannski aðallega af því að fólk veit ekki hvað það ætti helst að sniðganga) og það er ólíklegt að þorri fólks hætti að eigin vali kaupa súkkulaði. Ég held hinsvegar að það gæti skilað árangri að gefa því súkkulaði sem ekki er framleitt af þrælum ákveðinn stimpil, svo neytandinn geti beint viðskiptum sínum til fyrirtækja sem ástunda ekki þrælahald. Það er allavega raunhæfari leið en að merkja allar vörur frá vondum fyrirtækjum. Semsagt hvatning til að versla við mórölsk fyrirtæki fremur en að sniðganga þau slæmu.

    Er Fair Trade vottun lausnin?

    Þessi leið hefur verið reynd. Fair Trade vörurnar eru stundum dálítið dýrari en varla hægt að tala um okur. Hvað súkkulaðið varðar er gallinn sá að það er ekkert einfalt að finna út hvaða baunir eru tíndar af þrælum og hvaða baunir af frjálsu fólki svo enn sem komið er eru það aðallega fyrirtæki sem leggja beinlínis metnað sinn í heiðarlega viðskiptahætti sem fá þennan stimpil. Sem stendur eru þau svo fá að fyrir þeim neytendum sem ekkert hafa velt þessum málum fyrir sér lítur þetta kannski út eins og sérviska sem á lítið erindi við almenning. Þeir best upplýstu hrista aftur á móti höfuðið og spyrja hvernig eigi að vera hægt að treysta samtökum sem gefa vöruflokki frá jafn ógeðfelldu fyrirtæki og Nestle en Kit Kat súkkulaðið hefur fengið Fair Trade vottun. Er virkilega nóg að einhver grein fyrirtækis noti ekki þrælavörur þótt móðurfyrirtækið sjálft sé blóðsekt?

    Ég hef samt dálitla trú á þessari aðferð. Það þarf áreiðanlega að bæta hana og einnig að upplýsa fólk um það nákvæmlega hvað stimpillinn merkir því hann merkir ekki endilega að allt sé í glimrandi velstandi og engin ástæða til að spyrja siðferðilegra spurninga. Ég bind samt vonir við þessa aðferð því ég hef allavega enga trú á því að fólk hætti bara að kaupa súkkulaði af sjálfsdáðum og þar sem ég kaupi súkkulaði sjálf, get ég ekki einu sinni ætlast til þess. En ef ég get valið um Fair Trade súkkulaði og aðra vörur sem eru jafn góðar, kaupi ég Fair Trade vöruna, jafnvel þótt hún sé eitlitið dýrari. Ég held að þegar það verður að normi að sniðganga þau fyrirtæki sem ekki eru með stimpil af þessu tagi, muni fyrirtækin sjá sér hag í því að ráða fullorðið fólk og greiða því laun svo það geti framfleytt börnum sínum. (Það er ekki nóg að uppræta þrælahald og skilja fólk svo eftir afkomulaust.)

    Ég held að við ættum að gefa Fair Trade vottun raunverulegt tækifæri. Hið opinbera ætti að styrkja starfsemi samtaka eins og Fair Trade. Hugsanlega niðurgreiða þær því ef verðið fer yfir meðallag þá munu fáir velja þennan kost. Það ætti að skikka allar verslanir til að taka inn Tair Trade vörur (eða vörur með sambærilegum stimplum.) Lágvöruverðsverslanir kunna að vera tregar til þess þar sem er ekki hægt að bjóða þessar vörur á fáránlega lágu verði en það er nú svo að margir þeirra sem versla í Bónus, væru samt alveg tilbúnir til að greiða dálítið hærra verð fyrir einstaka vörur ef þeir þyrftu ekki að fara í aðrar búðir til þess. Með því að gera það að metnaðarmáli fyrir fyrirtæki, gera Fair Trade vörur aðgengilegar fyrir alla og auglýsa þær og málstaðinn almennilega, myndu neytendur með tímanum fara að líta þær vörur hornauga sem ekki hafa slíkan stimpil. Þetta er eina leiðin sem ég sé fyrir mér að geti skilað árangri, svona fyrst engin stemning er fyrir almennilegri byltingu.

    En svo má auðvitað fara valdboðsleiðina og gera súkkulaðikaup refsiverð.

    Og svo þurfum við að banna fólki að kaupa kaffi

    Og bómullarvörur

    Og múrsteina

    Og flugelda

    Og vefnaðarvörur

    Og tóbak

    Við getum þó huggað okkur við að kynlífskaup eru nú þegar bönnuð. Þetta kúgaða fórnarlamb mansals sem af ótta við hina undirokandi fulltrúa feðraveldisins þorir ekki annað en að hegða sér eins og ýlandi dræsa, á því betri daga í vændum, ólíkt smábörnum sem þræla við að bera múrsteina og sprengja af sér útlimi við flugeldagerð.