Kona að nafni Þórlaug Ágústdóttir sakar mig um að vinna gegn baráttunni gegn þrælahaldi. Það var svosem auðvitað. Ein af baráttuaðferðum dólgafeminismans eru þessi skilaboð; „ef þú samþykkir ekki allt sem ég segi, hvort sem það er byggt á einhverjum raunveruleika eða ekki, ertu þar með að verja kúgun kvenna og grafa undan kvenréttindabaráttunni. Ef þú ert karlmaður ertu auk þess kynferðislega brenglaður og halt þú svo bara kjafti.“  Þetta viðhorf kom t.d. glöggt fram í  svari Maríu Lilju til Davíðs Þórs nú nýverið. Enda þótt hann væri í grundvallaratriðum sammála henni, var það að eitthvað bæri í milli í viðhorfum þeirra, sönnun fyrir því að hann væri sérlegur fylgismaður vændisánauðar.

Í svipuðum dúr er svar Þórlaugar á umræðuþræði á knúzinu, þar sem ég hafði með vísun í rannsóknir, hafnaði þeirri kenningu að langflestar vændiskonur eigi hræðilegar aðstæður að baki. Ég tók einnig fram að án þess að nokkur afneiti því að þrælahald viðgangist í kynlífsbransanum, séu tölur um það stórlega ýktar og þótt þrælahald sé einnig stundað í fjölmörgum öðrum starfsgreinum fái aðeins kynlífsánauð einhverja athygli. Þetta er svarið sem ég fékk:

,,Eva Hauksdottir, þetta er beinlínis rangt hjá þér, þrælasala í það heila fær sáralitla athygli en child-soldiers, námuverkamenn og kynlífsþrælar hafa allir fengið of LITLA athygli. Eitthvað finnst mér þú afvegaleidd í baráttunni gegn óréttlæti heimsins ef þú sérð ekki bara ástæðu til að gera ekkert, heldur beinlínis vinna á móti því að vekja athygli á vandamálinu sem kynlífsþrælasala er. Öll þrælasala er viðbjóðsleg, furðulegt að þú sjáir ástæðu til að gera upp á milli þræla á þennan hátt. Sjaldan sem maður sér einhvern svo keikan við að verja viðbjóðinn og hafðu skömm fyrir.“

Ég er semsagt ,,keik við að verja viðbjóðinn“ af því að ég hef vogað mér að benda á fúskrannsóknir og þöggun þeirra kvenna sem sjá sér hag í því að stunda kynlífsþjónustu (sem eins og komið hefur fram í fyrri pistlum mínum á hreint ekki bara við um millistéttarmellur heldur einnig margar þeirra kvenna sem sjálfar segjast vera frjálsar og hafa jafnvel þurft að borga sig inn í kynlífsiðnaðinn á Vesturlöndum en eru samt sem áður skilgreindar sem fórnarlömb mansals.)

Nú hef ég ekki á bak við mig neina vísindalega úttekt á því hvaða tegundir þrælahalds fá mesta athygli. Sú tilgáta að það sé kynlífsþrælkun er sett fram eingöngu út frá þeirri umræðu sem ég verð vör við sjálf og sú upplifun er hugsanlega ekki í takt við raunveruleikann en samkvæmt leitarorðum á Google og fjölmiðlavaktinni fær kynlífsþrælkun (orðið mansal er nánast ekkert notað um aðrar tegundir þrælahalds)  síst minni athygli en aðrar tegundir þrælahalds og sennilega mun meiri. Það er ekki vísindleg aðferð að skoða tölur um umflettingu orða á leitarvélum en gefur þó einhverja vísbendingu. Ef þetta er röng ályktun getur Þórlaug  kannski upprætt fáfræði mína og upplýst mig um það hvaða aðferð hún notaði til að komast að þeirri niðurstöðu að kynlífsþrælkun sé svona vænrækt.

Það er annars út af fyrir sig áhugavert hvaða mál yfirvöld, vísindasamfélagið og fjölmimðlar álíta að komi okkur við. Ég væri t.d. til í að fá upplýsingar um það hversu miklum fjármunum Norðurlandaþjóðirnar hafa varið síðustu 5 árin í rannsóknir á kynlífsiðnaðinum miðað við aðar starfsgreinar þar sem ólöglegir innflytjendur starfa. Ef einhver sem les þetta getur bent á heimilidir þá þigg ég það með þökkum.  Ég bíð þess svo með eftirvæntingu að heyra rökstuðning Þórlaugar fyrir því að kynlífsþrælkun fái minni athygli en aðrar greinar þrælahalds.

Það er von að Þórlaugu blöskri þegar fólk tekur að sér að „verja viðbjóðinn“ en af orðum hennar mætti ætla að ég hafi varið þrælahald. Það hef ég aldrei gert. Ég hef hinsvegar varið viðbjóð á borð við kröfuna um að það sem sett er fram í nafni vísinda, sé byggt á vísindalegum aðferðum en ekki trúarbrögðum femninsta. Ég hef einnig varið sjálfsákvörðunarrétt kvenna, sem er náttúrulega alger viðbjóður í hugum þeirra sem telja sig hafa einhverskonar yfirskilvitlegt umboð til að valta yfir aðra og ákveða einhliða hvað þeim er fyrir bestu. Ég hef varið annan eins viðbjóð og mannréttindi kvenna sem er „bjargað“ úr kynlífsbransanum gegn vilja sínum og sendar heim í eymdina, oft í hendur alvöru melludólga sem eiga lítið skylt við eigendur vestrænna nektardansklúbba og erótískra nuddstofa. Í Danmörku, þar sem Þórlaug er búsett, fá þessar konur 100 daga uppihald (við erum ekki að tala um upphæðir sem komast neitt nálægt laununum þeirra) áður en þeim er hent úr landi. Mótmæli gegn þessari meðferð er jú einn viðbjóðurinn sem ég er að verja.

Það er skemmtileg tilviljun að Þórlaug skuli nefna barnahermenn því svo vill til að Íslendingar hafa einmitt reynslu af því að fótumtroða mannréttindi barnahermanns, þagga niður ákall hans um hjálp og láta sig örlög hans nákvæmlega engu varða. Ætli Þórlaug viti hvað varð um Henry Turay? Ætli einhver alþingismaður viti það? Það efast ég um en bæði alþingismenn og almenningur eru hinsvegar með það á hreinu í smáatriðum hvernig Gunnar í Krossinum káfaði á mágkonum sínum. Það flokkar landinn sem sálarmorð (Sjá t.d. umræðukerfið hér) en ég hef líklega verið að „verja viðbjóðinn“ þegar ég sagði að það væri  gróf móðgun við barnahermenn og fórnarlömb pyntinga að kalla kynferðislega áreitni af þessu tagi  sálarmorð. Það með hlýt ég, samkvæmt feminiskri rökvísi að vera að hvetja menn til að káfa á mágkonum sínum eða hvað?

Nei gæskan ég hef aldrei gert lítið úr hörmungum fórnarlamba ofbeldis og þrældóms. Þeir sem gera lítið úr hörmungum eru fólkið sem framkvæmir og heldur á lofti rannsóknum sem standast enga skoðun. (Af mörgu er að taka en hugmyndin um bældar minningar er einn viðbjóðurinn sem fjöldi Íslendinga hefur sameinast um að verja.) Þeir sem jafna vægri kynferðislegri áreitni við sálarmorð, Þeir sem setja  samasemmerki milli  kynlífskaupa og nauðgunar.  Þeir sem „bjarga“ fólki úr viðunandi aðstæðum sem þykja þó ekki par fínar, til þess eins að senda það á vit fátæktar, ofbeldis og þrældóms. Þeir sem sjá engan mun á milligöngu um vændi og þrælahaldi. Þeir sem sjá engan sérstakan mun á  kúgun kvenna í Íran og á Íslandi. Þeir sem halda því fram að barnavændi sé algengt á Íslandi og að það sé algengt að íslenskir karlar læsi konur sínar inni og geri þær út til kynlífsþjónustu. Þeir sem  flokka allar farandhórur sem þræla og neita staðfastlega að gera minnstu tilraun til að horfa á heiminn út frá sjónarhóli þeirra sem þeir þykjast ætla að frelsa.

Þetta eru þeir sem gera lítið úr hörmunugum. Flestir þeirra kalla sig feminista.