Yfirborðskennd umfjöllun

Umfjöllun um þessi samtök og önnur álíka er langoftast mjög yfirborðskennd. Allir vita að þetta eru „skipulögð glæpasamtök“ en allar upplýsingar vantar um það hvaða glæpi þeir hafa framið, hvaða aðferðum þeir beita og hvernig þeir réttlæta gjörðir sínar. Það eru sjaldan eða aldrei nefnd dæmi um dóma sem hafa fallið gegn meðlimum hreyfingarinnar eða á nokkurn hátt rökstutt að hreyfing sé á bak við þá glæpi. Þeir eru bara svona grýla sem allir vita að dreifa dópi og lemja mann og annan þótt fáir geti skýrt það neitt frekar.

Ég held að til þess að sé hægt að draga úr skipulagðri glæpastarfsemi þurfi fólk að vita eitthvað um það hvernig þessir menn hugsa. Svo er það nú bara svo að til er nokkuð sem kallast mannréttindi og þeirra á fólk að njóta hvort sem það á það skilið eður ei. Það er oft mjög súrt en ef við sviptum einn hóp mannréttindum af því að þeir eru ljótukallar þá má allt eins reikna með að yfirvaldinu finnist einhverjir vesalingar vera ljótukallar næst. Skúrkar hafa mannréttindi eins og aðrir. Þessvegna á að nota einhverjar aðrar aðferðir en kerfisbundin mannréttindabrot til þess að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi og ég held að almennileg upplýsing, sem ekki einkennist af ýkjum og æsifréttamennsku geti verið lóð á vogarskálina.