Við sem hvorki erum karlar né konur

indexVitur kona sagði eitt sinn „Það er eðlilegast og hollast fyrir konur að vera ekki að koma karlmönnum mikið inn í heim varalitsins og maskarans því þá dettur allur sjarmi niður!“

Á þeim tíma hélt ég að þessi hugsunarháttur einkenndi aðeins örfáar manneskjur en í dag veit ég betur. Í dag veit ég að munurinn á karli og konu felst í því að konur hafa áhuga á útliti sínu, snyrtivörum og kynlífi en ekki samfélagsmálum. Konur lesa skvísubækur og horfa á Sex & the City. Karlar hinsvegar, þeir eru bara svona allskonar.

Þetta blogg skipar heiðurssess á Eyjunni. Lára Hanna hefur líklega ekki þótt nógu metnaðarfull. Eða kannski var henni ýtt frá af því að eins og allir vita hafa konur fyrst og fremst áhuga á snyrtivörum og karlmönnum og Lára Hanna flokkast því hvorki sem karl né kona. Það gengur náttúrulega ekki að vera með eitthvert illflokkanlegt fyrirbæri sem einkennismerki fyrir fjölmiðil sem vill láta taka sig alvarlega.

Fleira fólk en Lára Hanna er í þeirri einkennilegu stöðu að vera með píku en hafa samt áhuga á fleiru en útliti sínu og listinni að hafa karlmann í vasanum. En þetta fólk er ekki konur. Kellingar kannski.

Kellingar eru ekkert endilega allar eins. Sumar þeirra nota alveg jafn mikinn varalit og Tobba, sumum þeirra finnst gaman að ríða og sumar þeirra eru forhertir feministar sem líta á heim maskara og varalitar sem næsta bæ við Helvíti. Það er jafnvel til í dæminu að kellingar hafi ákveðinn sjarma en þó því aðeins að þær gæti þess að halda karlmönnum frá heimi maskara og varalitar. Tvennt er það þó, sem allar kellingar eiga sameiginlegt. Þær kunna ekki að keyra og eru alltaf eitthvað að þenja sig.

 

One thought on “Við sem hvorki erum karlar né konur

 1. ———————————

  Eins og talað úr úr mínu hjarta 😉

  (Og ég keyri aldrei … tek það fram …)

  Posted by: Harpa Hreinsdóttir | 14.08.2011 | 22:18:56

  Er hætt að nenna inná eyjuna nema til að lesa einstaka bloggara og Silfrið. En alls ekki daglega eins og áður.

  Posted by: Margrét Sig | 14.08.2011 | 22:28:41

  En það er staðreynd, konur kunna ekki að keyra bíl !!! Sjáðu bara þetta myndband :

  http://wn.com/Harry_Enfield__Women,_Don%27t_Drive

  Posted by: GVV | 16.08.2011 | 14:59:35

  ———————————

  Hvernig væri þá að bæta almenningssamgöngurnar. ;D

  Posted by: Gunný R. | 17.08.2011 | 0:53:56

Lokað er á athugasemdir.