Til varnar fúllyndum femínista

Ég hef áhyggjur af Tóta. Þekki manninn reyndar ekki neitt nema úr bloggheimum en hef lengi haft alveg sérstaka ánægju af því að lesa þennan fúllynda feminista sem er, þrátt fyrir vafasamar skoðanir sínar, eða kannski vegna þeirra, einhver fyndnasti bloggari landins. Tóti er nefnilega ekta. Hann er oxymoron bloggsins, geðillskuhúmoristi, en auk þess svo fágaður í andstygglegheitum sínum að það er hrein unun að byrja slæman dag á því að lesa hann. Maður getur ekki annað en notið heimsku mannanna eftir það.

Mig rennir þó í grun að non sell out feministi eins og Tóti þrífist hreinlega ekki nema að í lífi hans sé einhver vond kona sem angrar hann reglulega með ásökunum um daður við karlrembu og álíka þvælu því fátt kemur geðillskuhúmoristanum jafn rækilega til og vond kona. Vandamálið er bara að þar sem vondar konur hafa tilhneigingu til að láta sig hverfa þegar þær eru búnar að gera karlgarminn hæfilega óhamingjusaman, er alltaf hætta á því að Tóti jafni sig af geðillskunni og hætti þar með að vera fyndinn.

Það yrði mikið tjón fyrir bloggheima ef Tóti yrði hamingjusamur og ég hef reynt að sporna gegn þeirri þróun með því að taka sjálf að mér að hnýta í hann. Þrátt fyrir að ég hafi aðeins aðgang að Tóta í gegnum fb, hefur mér tekist svo vel upp í eineltinu að hann er farinn að velta því fyrir sér hvort hann hafi óvart barnað mig á fylleríi. En sú er nú ekki raunin, ég er bara svo andstyggilega innrætt frá náttúrunnar hendi að ég þarf ekki einu sinni að vera barnsmóðir hans til að kvelja fram húmorinn í honum.

Feministar eins og Tóti þrífast á því að vera lagðir í einelti og nú þegar fyrsta barnsmóðir Tóta er flutt úr landi og sú sem vann með honum er farin til Birtings, er ákveðin hætta á nornaþurrð í lífi hans. Þess sjást reyndar strax merki. Þóra er varla búin að hreinsa skrifborðið sitt þegar blessaður maðurinn er orðinn miður sín yfir því að vera ekki gerður ábyrgur fyrir heimskuhjali kvenna sem hafa eldlegan áhuga á varalit. Hann saknar greinilega þess tíma þegar til stóð að brenna hann á báli fyrir að skrifa sögu Catalínu og þráir nú vondar konur sem næra í honum fýlupúkann með því skamma hann, hinn sanna non sell out feminista, fyrir karlrembu, hlutgervingu og almenna mannvonsku.

Eymingja Tóti. Enginn vill klína sök á hann. Engin ill feministabelja sem kennir honum um ófarir vændiskvenna og þvaðrið í Ellý og Tobbu. Þessa síðustu færslu skortir aukinheldur þennan hárfína undirtón sem einkennir Tóta, beiskjan er ekki beinlínis tilgerðarleg en það vantar eitthvað ofurlítið upp á snilldargremjuna sem skín í gegn t.d. í öðlingsfærslunni hans. Með þessu áframhaldi má reikna með að Tóti fái æ færri ástæður til að vorkenna sjálfum sér fyrir sökudólgshlutverkið og umbreytist í glaðan aumingja.

Við svo búið má ekki standa og sem sannur aktivisti hlýt ég að grípa til aðgerða. Jamm, ég gerði það, ég sótti um vinnu hjá Fréttatímanum. Að vísu er ég læs og skrifandi og það er ekki í tísku meðal blaðamanna en þar sem Fréttatíminn umber þá eiginleika öðrum fjölmiðlum betur ætti það ekki að koma að sök. Nú vona ég bara að húsbændur Fréttatímans sjái hættuna sem steðjar að íslensku menningarlífi við brottför Þóru og ráði mig til að halda Tóta í jafnvægi. Ég gæti jafnvel skrifað eitthvað líka, svona í hjáverkum.