Tilgangslaust

Birta: Hann er allavega sætur á mynd. Og er ekki með stafsetningarvillu í öðru hverju orði.
Eva: Mmpm, ég veit samt ekki…
Birta: Viltu kynnast karlmanni eða ekki?
Eva: Jú, ég vil það alveg. En ég held samt að það þýði ekkert fyrir mig að vera að hitta karlmenn. Ég er bara einhvernveginn dauð inni í mér.

Birta: Og þú heldur auðvitað að það lagist af sjálfu sér einn daginn, þegar hinn fullkomni maður rúllar undan rúminu þínu og heltekur þig með hetjuskap sínum og skáldlegu innsæi?
Eva: Æ þegiðu. Ég bara veit ekki hvort ég er tilbúin. Það hefur allavega ekkert komið út úr því þótt ég hafi hitt þessa tvo. Ég fann ekki fyrir neinu, ekki frekar en gangvart Sjoppmundi og hvorugur þeirra hefur haft samband. Ég veit líka að þessi gaur hefur hitt fleiri konur sem hann kynntist á facebook svo þetta er ekki eldlegur áhugi á mér sem manneskju, hann er bara að leita.
Birta: Góð tölfræði hjá þér. Næst þegar koma tveir kúnnar í röð inn í búðina án þess að versla og án þess að kveikja í þér löngun til að halda þeim lengur inni, og þegar sá þriðji kemur svo og segist bara ætla að skoða, þá skulum við bara loka sjoppunni.

Eva: Ég held að ég sé búin að missa of marga menn. Að ég eigi aldrei eftir að þora að elska neinn eða treysta neinum framar.
Birta: Hélstu það ekki líka síðast?
Eva: Jú og hvað gerðist?
Birta: Þú kynntist eintaki sem var að sumu leyti skárra.
Eva: … sem særði mig samt.
Birta: Og hvað með það? Er líf þitt eitthvað verra en það var fyrir?

Eva: Ég er bara næstum viss um að það yrði tímasóun.
Birta: Rétt hjá þér. Það nær engri átt að eyða hálftíma af lífi sínu í innantómt kaffibollaspjall við karlmann sem þú munt svo kannski bara ekkert giftast og lifa með hamingjusöm til æviloka. Ég veit hvað við skulum gera. Við skulum frekar verja þessum háltfíma í eitthvað sem skiptir máli. Við getum t.d. notað hann til að velta okkur upp úr því hvað Pegasus var raunverulega að hugsa á sumardaginn fyrsta, eða hvað Húsasmiðurinn var að hugsa daginn sem hann dömpaði okkur eða hvort Ljúflingur tók í alvörunni engan þátt í að ákveða að eignast barnið.

Eva: Ég veit um mann sem hugsar mikið um mig.
Birta: Og hvað hugsar hann?
Eva: Það veit ég ekki. Ég les ekki hugsanir. En hann er með mig á heilanum. Ekki bara einhverja konu heldur mig persónulega. Ég finn það. Finn það nánast líkamlega.
Birta: Hefur HANN haft samband og lýst yfir áhuga á að drekka með þér einn kaffibolla?
Eva: Nei. En kannski þorir hann það ekki. Ég er býsna ógnvekjandi er mér sagt.
Birta: Já og gjörsamlega heilluð af karlmennsku sem birtist í því að geta ekki einusinni bitið í sig kjark til að hafa samband við þig að fyrra bragði.
Eva: Eru ekki allir menn huglausir? Ég veit að hann er með mig á heilanum og ég kann á síma.
Birta: Jamm. Og Matti í Vantrú er með Gvuð á heilanum. Það hlýtur að merkja að hann vilji endilega kynnast Gvuði í eigin persónu. Líklega þorir hann bara ekki að feisa söfnuðinn og viðurkenna trú sína. Sennilega vill hann að Gvuð sendi votta Jehóva til hans og láti þá troða Varðturninum upp á hann.

Ég verð að viðurkenna að hún hefur rétt fyrir sér. Það er rökrétt að hitta einhvern sem hefur samband og sýnir áhuga þótt hann sé sennilega búinn að mæla sér mót við 10 aðrar konur. Það er rökrétt að hundsa einhvern sem sýnir ekki áhuga, jafnvel þótt hann sé með mann á heilanum og hitti ekki neina aðra konu heldur.

It’s a date. Kannski kemur ekkert út úr því. Líklegast ekki. En ég get allavega bloggað um hvað það sé tilgangslaust að hitta karlmenn.