Um fjögurleytið gefst ég upp á að bylta mér og dreg lappann upp í rúm. Og eins og í alvöru sápuóperu dúkkar Elías tilveru minnar upp á skjánum.
Elías: Hvað, þú bara á fótum? Er svona brjálað að gera hjá þér?
Eva: Neinei, ég er bara andvaka.
Elías: Út af kreppunni?
Eva: Nei, út af karlmönnum.
Elías: Karlmönnum? Í fleirtölu semsagt?
Eva: Jamm.
Elías: Hmmm… Það hljómar ekki vel. Hvað er í gangi?
Eva: Ekkert. Það er nákvæmlega ekkert í gangi en ég gæti kannski sett eitthvað í gang og hausinn á mér er búinn að vera á 78 snúningum svo lengi að mig svimar.
Elías: Hvað er málið? Ertu með valkvíða eða ástfangin eða hvað er eiginlega að?
Eva: Bara ofur kvenlegt dramarunk. Tveir kostir í boði og hvárgi góður.
Elías: Semsagt reykingamaður og alkóhólisti?
Eva: Neeei, það er flóknara. Málið er að það eru heilir tveir reyklausir og nokkurnveginn ógiptir karlmenn á landinu sem eru hvorki ljótir né leiðinlegir. Og mig langar semsagt að leika við þá báða.
Elías: Tvo í einu, það er aldeilis. Bara fjör í kjeeeellu!
Eva: Nei vá, ekki báða í einu. Það myndi enda með annaðhvort morði eða giftingu. Nema hvorttveggja væri.
Elías: Og fyrst þú ert með tvo í huga, hvað í ósköpunum ertu þá að gera ein heima hjá þér? Geta þessir menn ekki hopposíast á næturnar eins og annað fólk?
Eva: Málið er bara að hvorugur þeirra getur talist æskilegur leikfélagi. Annar þeirra elskar mig óskaplega mikið úr fjarlægð en hann skilur mig álíka vel og ég skil arabisku og er of hræddur við mig til að sé vogandi að vaða upp í til hans. Hann myndi bara skríða undir rúm og urra. Hinn skilur mig eins vel og maður getur á annað borð skilið aðra manneskju en hann er í ástarsorg eftir aðra konu, sem hann var nógu hræddur við til að elska úr fjarlægð, og hann langar bara að hnoðast á mér. Sem væri fínt ef hann væri nógu hræddur við mig til þess að ég gæti hnoðast á honum og gleymt honum svo, en þar sem hann skilur mig og veit að ég er ekki nærri eins hættuleg og ég lít út fyrir að vera, er hann bara ekki rassgat hræddur og myndi örugglega gera mig drullu skotna í sér. Og þá yrði ég hrædd.
Elías: Semsagt tveir jeppar og hvorugur frátekinn og þú að fara á límingunum af því að hvorugur er fullkominn? Þetta hljómar nú satt að segja eins og heimatilbúið vandamál. Af hverju þarf gaurinn að skilja þig eða elska þig ef þig langar bara að sofa hjá honum?
Eva: Ég sagði ekkert að mig langaði BARA að sofa hjá þeim. Mig vantar tengsl. Ég hef ekki talað við karlmann lengi og væri alveg til í að hafa það með.
Elías: Nú og geturðu þá ekki talað við þá báða og reddað þér að öðru leyti sjálf? Kannski verður Hérastubbur öruggari ef hann fær að þefa af hendinni á þér áður en þú reynir að klappa honum og Einsi Útumallt hefði eflaust gott af að þurfa að sýna lágmarks kurteisi áður en hann tætir í torfæruna á þér. Það er allavega skárra að hafa einhvern til að tala við en að textast á við flökkufugl sem getur eingöngu verið í nettengingu við þig.
Eva: Það er nú svo með karlmenn að þeir eru dálítið spes dýrategund. Þessir tveir eru t.d. báðir óhæfir til áhugaverðra samræðna. Annar er svo tilfinningalega krepptur að hann getur ekki talað um sjálfan sig og hinn getur helst ekki talað um neitt annað en sjálfan sig. Reyndar hef ég trú á því að kona í sæmilegu jafnvægi gæti virkjað þá báða til eðlilegra samræðna en ég er bara svo frústreruð að ég myndi sennilega glefsa í annan og kyrkja hinn nema samræði ætti sér stað fyrst. Í alvöru talað, manneskjur bara fúnkera ekki almennilega án þess.
Elías: Segðu mér nú eitt Eva mín, hvað sérðu eiginlega við þessa menn?
Eva: Ekkert sem skiptir máli svosem. Mig vantar bara snertingu. Eða kannski frekar geðtengsl. Ég held ég þjáist af táknsýki. Mig vantar tengingu. Jarðtengingu. Kynferðislega tengingu. Tilfinningalega tengingu. Uhh… ég er þó allavega með nettengingu núna, það bara gerir svo lítið fyrir mig.
Elías: Reyndar held ég að nettenging komi alveg í staðinn fyrir tilfinningatengingu.
Eva: Já heldurðu það virkilega? Og hvernig líður þér svo í hjartanu elskan? Langar þig að einhver kyssi hnakkagrófina á þér? Langar þig að hughreysta einmana konu? Eða vantar þig klapp á bakið? Á ég að horfa í augun á þér og segja þér að þú sért flinkastur og bestur og með flottasta þvottabretti í tveimur heimsálfum? Langar þig kannski að tæta í torfæruna á mér?
Elías: Ókei, ég viðurkenni það, netið er fínt til að halda sambandi en þetta virkar eiginlega ekki.
Eva: Það er samt skárra en ekkert. Gott að vita af þér hér. Veistu hvað, ég vil að þú elskir mig. Núna.
Elías: Þú vilt að EINHVER elski þig.
Eva: Og er EINHVER annar hér? Já það er satt, þetta er ekkert persónulegt. Mig langar bara að heyra röddina í einhverjum, finna lykina af einhverjum, horfa á einhvern…
Elías: Eva, ekki…
Eva: …snerta einhvern, finna bragðið af einhverjum. Og þú ert einhver…
Elías: Eva ég næ þessu, hættu nú.
Eva: Og þú ert einhver sem ég er í einhverjum tengslum við, þótt það séu bara nettengsl og verður þ.a.l. sjálfkrafa fórnarlamb táknsýki minnar. Mig langar að snerta sálina í þér Elías. Mig langar að sofa hjá þér Elías. Núna strax, í hvelli.
Elías: Þú ert hræðileg kona og táknsjúk og nú er ég næstum farinn að gráta af táknsýki sjálfur. Mig svíður sárt að vera ekki í aðstöðu til að rassskella þig.
Eva: Ég veit það gæskur, þú skilur mig eftir allt saman. Þótt þú sért nörd. Takk fyrir að tengjast mér. Takk fyrir að þjást með mér. Mér finnst gott að vera elskuð.
Svo slökkti ég á vélinni og glotti kvikindislega með sjálfri mér.
————————————————-
Velkomin heim fallegi fugl
mig langaði að fljúga með
en búrið var bara ekki opið
Posted by: Garðar | 3.11.2008 | 10:07:25
————————————————-
Drottinn minn dýri Garðar, vertu ekki svona hallærislegur. Þú skreiðst sjálfur inn í þetta búr og skelltir á eftir þér.
Posted by: Eva | 3.11.2008 | 10:41:01
————————————————-
jú, það er satt hjá þér en ég skellti nú ekkert voðalega fast.
öll erum við í einhverskonar búri. sunir eru fangar eigna sinna aðrir eru fangar örbyrgða, Ég er svona mitt á milli bara fangi loforða og ábyrgða innann ákveðins tímaramma.það koma tímar það koma ráð. ég ræð yfir þremur kennitölum. ein kennitalan er 550291-1429 stofnað í febrúar 1991. Ég hef á tilfinningunni að þú verðir að vera með í að „Brainstorma“ þessa kennitölu. þessari kennitölu fylgir skuldlaust land og hús óháð allri opinberri þjónustu.
Posted by: Garðar | 3.11.2008 | 11:06:53
————————————————-
Takk fyrir tilboðið Garðar minn en ég hef alveg nóg með eitt fyrirtæki. Gangi þér vel með Ljósberann og ég vona að þú finnir góðan viðskiptafélaga.
Posted by: Eva | 3.11.2008 | 11:56:18
————————————————-
þú ert að misskilja mig. félagið ljósberar er 55 kennitala. sem er áhugamannafélag og hlýtur sérreglum. ég er ekki að leita eftir viðskipta hagsmunum þar. ég er að leita eftir tengingum tengslum böndum bandingjum við fornmannafélög til þess að ræða eða koma ákveðnum hugmyndum á framfæri.. viðskiptin rek ég í gegnum annað fyrirtæki sem heitir fjölþjónustan ehf.
Ljósberar var stofnað undir áhrifum yfirvitundar sem sumir kalla mikla anda. það var frekar torvelt að stofna þetta félag tók einhverjar vikur en svo þegar ég fékk kennitöluna skráða þá gaus hekla sama dag í febrúar 91 og banda menn gerðu loftárás á írak sama dag. ég myndi vilja segja þér í stuttu máli hver og hvert hugsun um þetta ljósberafélag er komin. en gerðu þér grein fyrir því að ég ræð ekki ferðinni ég er í rauninni einhverskonar móttakari.
mér sýnist þetta allt stefna í stóran hvítan galdur og ég er ekki viss um sjálfan mig í þessu sambandi og er svona að vonast til þess að einhver annar framkvæmi þessar hugmyndir, en smátt og smátt sé ég heildarmyndina, úr púsluspilum 20 ára og mér finnst þetta borðleggjandi góð tilraun, en ég held ég salti þetta nú bara og fari til Asíu á meðan allt fer hér í háloft í janúar og febrúar næstkomandi.
ég er búin að reyna að salta þetta ýta þessu frá mér en alltaf treður þetta sér inní alla hugsun mína. og ég verð að framkvæma.
Posted by: Garðar | 3.11.2008 | 17:10:44
————————————————-
Ég er bara að gá hvort þetta komist til skila.
Posted by: Mamma | 3.11.2008 | 23:58:43