Árni Beinteinn óstöðvandi

Þann 1. maí 2008 var kvikmyndin Auga fyrir auga sýnd fyrir fullum sal í Háskólabíó. Leikstjóri var Árni Beinteinn Árnason. Handritshöfundur var Árni Beinteinn Árnason. Árni Beinteinn Árnason lék tvö aðalhlutverk í myndinnni og hann sá um klippingu og tók þátt í annarri tæknivinnu. Árni Beinteinn var 13 ára.

Saga Árna Beinteins

Árni Beinteinn var atvinnuleikari frá 10 ára aldri. Hann hafði farið með barnahlutverk í fjölmörgum leiksýningum og a.m.k. einni kvikmynd, talsett teiknimyndir og komið fram í útvarpsþáttum. Þegar hann var að skríða inn á unglingsaldurinn sá hann fram á að kynferði hans yrði honum fjötur um fót. Röddin gat brugðist honum hvenær sem var og því minni líkur á að hann fengi stór hlutverk og sönghlutverk en honum þótti einnig gaman að syngja. Hann ákvað því að skapa sér önnur tækifæri; fara sjálfur út í kvikmyndagerð.

Árni Beinteinn fékk mikla aðstoð. Hann gekk milli fyrirtækja og sótti um styrki. Hann fékk lánuð tæki. Hann „bauð“ atvinnufólki úr leikhúsinu og kvikmyndageiranum að taka að sér hlutverk og sinna ýmsum verkefnum án endurgjalds. Hann bað um að fá að frumsýna myndina í Háskólabíó.  Hann fékk fjölskyldu sína og vini í lið með sér. Hann fékk hjálp til að gefa út DVD disk og gekk sjálfur í búðir og þrýsti á um að myndin væri höfð á sýnilegum stað.

Árni Beinteinn fékk ekki allt sem  hann bað um en hann fékk nógu mikla aðstoð til að gera drauminn að veruleika. Hann fékk hjálp út á hæfileika sína, framtakssemi, eldmóð, úthald og félagsfærni. Hann var að því leyti í góðri aðstöðu að hann átti vini í heimi leikhúss og kvikmynda. Hann hefur örugglega líka fengið aðstoð út á það að vera barn og eflaust hefur honum verið hlíft við harðri gagnrýni vegna aldurs síns. Veikleiki verður þeim að styrkleika sem ákveður að láta hann ekki standa sér fyrir þrifum. Ég leyfi mér að fullyrða að hann fékk ekki eina krónu, ekki einn smágreiða og einn bíógest út á það að vera karlkyns.

Auga fyrir auga ber þess merki að vera byrjandaverk og handritið er augljóslega skrifað af unglingi. En þetta er nú samt alvöru kvikmynd, mynd sem var sýnd fyrir fullu húsi í Háskólabíó, tvisvar sinnum, og á kvikmyndahátíð í Amsterdam.