Svar til Maríu Lilju

Þessi grein eftir Maríu Lilju Þrastardóttur er enn eitt dæmið um þá sjúklegu pólariseringu sem einkennir alla umræðu um kynferðisbrotamál.

Þeir sem ekki vilja taka upp öfuga sönnunarbyrði eru þar með að:
a) gera lítið úr kynferðisbrotum (sem í öllum tilvikum jafngilda „sálarmorði“)
b) halda því fram að konan sé að ljúga
c) halda því fram að konan sé drusla
d) halda því fram að fórnarlambið beri ábyrgð á glæpnum (enda þótt viðkomandi eigi líka að hafa afneitað möguleikanum á því að glæpurinn hafi átt sér stað.)

Möguleikinn á því að andstæðingar öfugrar sönnunabyrði viðurkenni einfaldlega að til séu mál sem réttarkerfið ræður ekki við, jafnvel mál sem nákomnir treysta sér ekki til að taka afstöðu til, er ekki inni í myndinni.

Nokkrar spurningar til þín María Lilja:

-Geturðu bent á áreiðanleg gögn sem renna stoðum undir þá kenningu að tilhæfulausar og rangar ásakanir í kynferðisbrotamálum séu ekki fleiri en í öðrum málaflokkum?

-Þú veist væntanlega að fjölmörg dæmi eru um að fólk hafi setið í fangelsi, jafnvel verið tekið af lífi saklaust, jafnvel þótt sönnunarbyrðin hafi verið hjá dómsvaldinu. Telur þú líklegt að þeim sem dæmdir eru saklausir muni fjölga ef tekin verður upp öfug sönnunarbyrði? Ef svarið er nei, á hverju byggðiru það mat? Ef svarið er já, finnst þér það í lagi?

-Myndir þú styðja frumvarp um öfuga sönnunarbyrði ef faðir þinn, bróðir, maki, sonur eða annar þér nákominn hefði orðið fyrir ásökun um kynferðisofbeldi og þú værir sannfærð um sakleysi hans?

-Eða er kannski karlmaður sem er saklaus af kynferðisofbeldi einfaldlega ekki til?

Að lokum; þú póstar þessum pistli á facebook með athugasemd um að hann eigi „… óhugnalega mikið við í umræðu dagsins í dag!“ Áttu við að þú sjáir ekki eðlismun á dónalegum bréfaskrifum og refsiverðum kynferðisglæp?

Límmiðar

Allt er þetta mál hið spaugilegasta. Maður sem er þekktur fyrir það helst að útbreiða útlitsdýrkun og yfirborðsmennsku meðal ungdómsins er fenginn til að hanna útlit bókar sem enginn les á pappír nema þeir sem komnir eru yfir sextugt. Þegar grunsemdir um að útlitið sé innrætinu skárra, fá byr undir báða vængi, er eigendum bókarinnar boðið að hylja yfirborðið. Og almenningi náttúrulega enganveginn treystandi til þess að verða sér úti um límmiða eða krota yfir sín eigin skilaboð. Staðlaðar lausnir, það er það sem gildir í dag.

gilli

Myndin er stolin af visi.is
af fullkomnu samviskuleysi og vanvirðingu fyrir höfundarréttarlögum

Dálítið táknrænt fyrir íslensku leiðina að redda klúðri með því að líma yfir það og kannski ennþá táknrænna að samkvæmt þessari mynd er helst að sjá sem límmiðarnir nái ekki yfir skankana á módelinu, ekki nema þá að hausinn standi upp fyrir. Hann er gangandi límmiði blessaður maðurinn.

Auðvitað hefði límmiðinn átt að vera sköndullaga. Það hefði þó allavega einhverjum þótt það fyndið.