Sláttumaðurinn

Hina níundu nótt ríður Sláttumaðurinn háloftin
hann lendir hvítum gandi sínum mjúklega utan vegar.

Holdlaust andlit hans lítur tómum tóttum
hornamikinn mannhafur
sem hangir í steinrunnu tré,
kjúkurnar kreppast um ljáinn.

Er ég þá dauður?
spyr fíflið.

Sláttumaðurinn sker á böndin.
Hann tekur fíflið á herðar sér og ber það út á veginn.
Svo ríður hann glottandi burt.

Satýrinn situr eftir í götunni.
Ægishjálm ber hann milli brúna sér
og köngurlóarmóðir
hefur skriðið upp úr Mímisbrunni
og ofið vetrarkvíða yfir veginn.
Hann horfir yfir þéttofið netið.
Hann hefur hann vald á rúnum
og heyrir á tal vargfugla
sem ráða honum að taka einn límkenndan þráð úr vetrarkvíðanum
og rekja sig áfram.

Hafurinn

Svo kom að því að þú saknaðir hans
og þú lagðir af stað til að leita hans.

Hann hélt víst til í Svartfjöllum, sögðu menn,
og þú leggur í langferð.
Yfir hraunlendi, beljandi jökulár, ófærufjöll,
urðargrjót, aurskriður,
eyðiskóg, kviksyndi, kletta.
Á Svartfjalla efsta tindi hefur Satýrinn reist sér turn.
Þar situr hann í hásæti og horfir yfir lendur sínar.

Hann hefur stækkað svo mikið
nú ná horn hans til himins
og hökuskeggið liðast niður fjallið
hvítur jökull í svörtum sandi.
Við fætur hans eru þúsund þrælar hlekkjaðir
og hlýða umyrðalaust hverri hans skipun.

Hvað er þetta fólk að gera hérna?
spyrð þú.
Það sama og þú, svarar vinur þinn,
þau eltu þrá sína,
og hefðu ekki komist hingað án þess.

Er það þetta sem þú vilt?
Varst þú ekki að leita að arnareggi fyrir Keisarann?
spyrð þú
og Satýrinn hlær.
Einhverju sinni lagði ég af stað til þess
en það er skemmtilegra hérna.

Finnst þér skemmtilegt að halda fólki í ánauð? segir þú
og Satýrinn svarar:
Það er þeirra ánægja en ekki mín nema að eilitlum hluta.
Ég fæ hugmyndir, vissulega, en þau framkvæma sjálfviljug.
Hvað sem er.
Éta, drekka, reykja, ríða, vinna, skíta, berja, drepa,
láta troða líkama sinn út af silikoni, bara ef mér dettur það í hug.
Það þykir þeim skemmtilegt
svo má ekki bjóða þér helsi minn kæri?

Þú grípur öxi þína og hleypur til þrælanna
býst til að höggva á hlekkina.
En þá sérðu
að hlekkirnir eru nógu víðir til þess
að þeir geti auðveldlega smokrað þeim af sér.
Þeir kæra sig ekki um frelsið.
Og þrælarnar leggjast á hnén og bíta snarrótina sem vex við turninn:
Hann er enginn harðstjóri hann vinur þinn
aðeins hafur meðal sauða.

Enginn vafurlogi varnar ferð þinni niður fjallið
samt staldrar þú hjá sauðhjörðinni um stund.

Turninn

Þegar þú, í birtingu, ákveður að yfirgefa turninn
fylgir gestgjafinn þér úr hlaði.
Vinur þinn sem áður var ungfífl
hefur ferðast með eldvagni
leitt þig á fund vogarkonunnar,
hitt ljónatemjarann á förnum vegi,
hangið á tré og horft í hyldypi himinsins.
Hann hefur lifað af ljáskurð Sláttumannsins
og séð samruna elds og vatns.
Nú hefur hann reist sér himinháan turn
og mikið er vald hans.

Hann kveður gest sinn
og þú horfir á bak honum
þegar hann gengur aftur til hallar sinnar.

Turninn gnæfir yfir
grænleitur í morgunskímunni.
Hrafnar á sveimi.
Svo kveður við þruma
og elding lýstur turninn.
Þú horfir á þrælana stökkva úr um glugga
í von um að forða sér
og þér verður ljóst
að þú ert sjálfur fífilið;
turninn byggður úr hugmyndum þínum um sjálfan þig.

Í morgunskímunni, horfirðu á brennandi turninn
þrælana falla til jarðar, eldtungum sleikta.
Grásvartur mökkurinn stígur til himins,
fórnarreykur
hugsar þú
og þú skilur ekki lengur tungumál þrælanna
þeirra sem sluppu lifandi úr brunanum
og hópast nú að þér.

Strengurinn

Seinna um nóttina vísaði stjarnan þér á helli.
Þú kastaðir poka þínum við munnann
og kraupst við fljótið til að fylla vatsbelgina.
Þú leist niður og sást að límkenndur þráður var tengur nafla þínum
og lá inn í hellinn.

Í fljótinu sástu nakinn líkama þinn
og hönd sem bar saumaskæri Keisaraynjunnar að strengnum.
Þú heyrðir leðurkennt hljóð
um leið og hún klippti á strenginn.

Að baki þér sástu stúlka í röndóttum sokkum,
hún vatt strengnum um hönd sér,
og vafði upp hnykil
um leið og hún elti þráðinn inn í hellinn.