Hafurinn

Svo kom að því að þú saknaðir hans
og þú lagðir af stað til að leita hans.

Hann hélt víst til í Svartfjöllum, sögðu menn,
og þú leggur í langferð.
Yfir hraunlendi, beljandi jökulár, ófærufjöll,
urðargrjót, aurskriður,
eyðiskóg, kviksyndi, kletta.
Á Svartfjalla efsta tindi hefur Satýrinn reist sér turn.
Þar situr hann í hásæti og horfir yfir lendur sínar.

Hann hefur stækkað svo mikið
nú ná horn hans til himins
og hökuskeggið liðast niður fjallið
hvítur jökull í svörtum sandi.
Við fætur hans eru þúsund þrælar hlekkjaðir
og hlýða umyrðalaust hverri hans skipun.

Hvað er þetta fólk að gera hérna?
spyrð þú.
Það sama og þú, svarar vinur þinn,
þau eltu þrá sína,
og hefðu ekki komist hingað án þess.

Er það þetta sem þú vilt?
Varst þú ekki að leita að arnareggi fyrir Keisarann?
spyrð þú
og Satýrinn hlær.
Einhverju sinni lagði ég af stað til þess
en það er skemmtilegra hérna.

Finnst þér skemmtilegt að halda fólki í ánauð? segir þú
og Satýrinn svarar:
Það er þeirra ánægja en ekki mín nema að eilitlum hluta.
Ég fæ hugmyndir, vissulega, en þau framkvæma sjálfviljug.
Hvað sem er.
Éta, drekka, reykja, ríða, vinna, skíta, berja, drepa,
láta troða líkama sinn út af silikoni, bara ef mér dettur það í hug.
Það þykir þeim skemmtilegt
svo má ekki bjóða þér helsi minn kæri?

Þú grípur öxi þína og hleypur til þrælanna
býst til að höggva á hlekkina.
En þá sérðu
að hlekkirnir eru nógu víðir til þess
að þeir geti auðveldlega smokrað þeim af sér.
Þeir kæra sig ekki um frelsið.
Og þrælarnar leggjast á hnén og bíta snarrótina sem vex við turninn:
Hann er enginn harðstjóri hann vinur þinn
aðeins hafur meðal sauða.

Enginn vafurlogi varnar ferð þinni niður fjallið
samt staldrar þú hjá sauðhjörðinni um stund.