Hamskiptin

Myndin er eftir Emily Balivet

 

Að fylgja þræðinum
er flóknara en menn gætu haldið.
Hvar er rétti þráðurinn í svo flóknum vef?
Togar í þráðinn.
Vindur hann upp í hnykil
en strengurinn flækist bara meira.

Að lokum hefur þú flækt þig svo illa í netinu að þú getur þig varla hreyft.
Brýst þó áfram þar til þú heyrir slímkenndan smell.
Belgur úr bláþráðum ofinn, springur á spegli
þú smokrar þér út úr hjúpnum og horfir í moldbrúnt auga
í miðju þess hyldjúpur brunnur
og rödd talar til þín úr djúpinu:

Ef veruleikinn væri bíómynd kæmirðu til mín. Þú myndir setjast á rúmstokkinn og spyrja; hvernig byrjaði það? Og ég myndi segja þér sögu sem væri falleg og átakanleg í senn. Og þú myndir skilja.

Ef gult væri blátt væri rautt, hefðir þú kjark til að elska mig eins og á að elska.
Og ef gult væri einfaldlega gult, væri ég fær um að gera það sem ég geri best.
Og ef blátt væri blátt áfram. En svo er víst ekki.

Einu sinni þekkti ég mann sem var svo einmana að stærsta leyndarmálið í lífi hans var að hann átti ekkert leyndarmál. Ég gaf honum leyndarmál og hann var mjög þakklátur. Ekki beinlínis fyrir að hafa eignast leyndarmál, heldur fyrir að eiga leyndarmál með einhverjum. Samt var það hvorki fallegt né átakanlegt leyndarmál. Sem er í sjálfu sér allt í lagi því hann hefði hvort sem er aldrei sagt neinum leyndarmálið og saga er einskis virði fyrr en einhver fær að heyra hana. Hvað þá ef hún er ekki fögur og átakanleg.

Slíkt er eðli leyndarmála Baggalútur minn. Leyndarmál öðlast ekki líf fyrr en maður deilir því með öðrum Og þá er það ekki lengur leyndarmál heldur saga. Og þannig er þráin líka. Þú getur haldið áfram að þrá mig, endalaust, svo ákaft að þig verkjar í hjartað. En öll þessi þrá gerir ekki annað en að éta þig að innan fyrr en þú sleppir tökunum á henni og deilir henni með mér. Og það er þannig sem maður byrjar að elska.

Ég hef þráðarkorn að spinna þér held ég enn.
Slíkt er hlutskipti nornar.