Ljóð handa hvunndagshetjum

… og skuggar hnipra sig saman
þegar morgunskíman
vomir ógnandi yfir

matarleifum gærdagsins
á eldhússborðinu
dagatali fyrra árs
sem enn hangir á veggnum
og bunka af ógreiddum reikningum

barn í götóttum sokk
togar sængina niður á gólf
og skjannahvítur morgunn
heltekur
vansvefta mjaðmir

að 5 börnum fæddum
hreyfir líkaminn mótmælum;
fyrir undna tusku
eymsli í öxlum
og stingur í mjóbak og mjöðm
við hvert moppudrag yfir gólfið

bjúgur dagsins
fyrir heimilisreksti
brjósklos næturinnar
fyrir uppsöfnuðum vanda
dugar ekki til

og bankinn
kinkar kolli samúðarfullur
og skrifar læknisvottorð;
sólarrhing
með 3 vinnustundum til viðbótar

og skuggarnir anda léttar
og breiða úr sér
yfir rúminu.

Ljóð handa hlaupagarpi

Fallinn, rétt einu sinni
kylliflatur
fram fyrir skakklappir tímans

sem alltaf virðist á hraðferð
og ég vona þín vegna
að hann gangi ekki
á pinnahælum.

Líttu svo upp og sjáðu hann aka burt
á nýja sportbílnum sínum.
Já, stattu á fætur
Náðu honum nú enn einu sinni.
Hlauptu með tunguna lafandi,
glefsaðu í dekkin og gjammaðu,
þá stoppar hann sjálfsagt og býður þér far.

Víst er hann beinn þessi vegur og breiður
leiðin greið
malbikið mjúkt undir sóla
og óvíst er um hvert krókóttir skógarstígar leiða.

En skyldirðu þreytast á hlaupunum
skal ég vera þér úlfur.
Leiða þig á villistíg
þar sem skógarber vaxa á skurðbakka
og lim eplatrés slútir yfir veginn.

Ljóð handa Mjallhvíti

Einmitt þegar þú heldur
að þú hafir fest hönd á mér
mun ég renna þér úr greipum
í nýjum ham.

Eftir skil ég grænsilfraða minningu
milli handa þinna,
mittislinda,
hluta af sjálfum mér.

Láttu ekki vondu drottninguna
hnýta að þér lindann mín ljúfa,
horfðu á eftir mér
þegar ég hverf í nýja hamnum mínum
djúpt inn í laufþykknið,
þar mun ég leita þér epla.

Sett í skúffuna í október 2000

Slydda

Kalt og blautt
og beint í andlitið.
Er einhver í geðillskukasti þarna uppi?
Fyrr má nú vera veðrið!
Annað en í minni sveit,
þar var alltaf sumar og sól.
(Nema stundum, en það er önnur saga.)

Nei, ég segi það satt,
þetta er ekki ásættanleg framkoma.
Það hljóta að vera borgarenglar
sem hrækja svona
í andlitið á saklausu fólki.