Blessað frelsið

Mig langar að jóla.

Mig langar að búa til konfekt og baka smákökur. Mig langar að bjóða vinkonum mínum í toddý og piparkökur. Mig langar á jólatónleika og fara með börn í bæinn til að kíkja skraut og jólasveina. Mig langar að búa til jólakort og flottar greniskreytingar. Og eldspýtustokkadagatal handa litlum börnum. Mig langar að strauja jóladúk og þvo gluggana og þrífa eldhússskápana að innan þótt þess þurfi ekki. Ég hef alltaf gert eitthvað af þessu en aldrei eins mikið og ég hefði viljað. Halda áfram að lesa

Smotterí

Dag eftir dag upplifi ég sömu senuna.

Viðskiptavinur: Mig vantar einhverja ægilega sniðuga gjöf.
Nornin: Þá ertu á réttum stað því hér fást eingöngu sniðugir hlutir. Hvað má ég sýna þér? Heillagripi? Galdra? Tarotspil?
Viðskiptavinur: Ég veit það eiginlega ekki, bara eitthvað svona almennt. Það er fyrir vinkonu mína.
Nornin: Gott og vel. Hvað má það kosta?
Viðskiptavinur: Ekkert mikið sko. Þetta á bara að vera algjört smotterí. Halda áfram að lesa

Mínus

Synir mínir virðast álíta að ef ég fer frá heimilinu í miðri tiltekt, þá feli það í sér dulin skilaboð um að það sé alger óþarfi að ganga frá nokkrum hlut eftir sig. Þeir ganga þokkalega um (þ.e.a.s. stofuna og eldhúsið, ekki herbergin sín) ef ég fer frá öllu gjörsamlega tip top en tveir óhreinir bollar í vaskinum og dagblað á stofuborðinu er nóg til þess að virkja sóðagenið. Halda áfram að lesa

Þvílík heilbrigðisþjónusta

Móðir mín var gráti næst þegar ég kom upp á spítala í morgun. Klukkan var orðin 9 og hún var búin að biðja um ákveðið magalyf frá kl 5 um morguninn en hafði bara fengið eitthvað ódýrt samheitalyf sem virkar ekkert á hana.

Hún fékk lyfið sem hún bað um á meðan ég stoppaði. Samt beit ég engan. Ég hefði samt gert það ef ég hefði þurft. Það er nefnilega staðreynd að ef hlutirnir ganga ekki eins og þeir ættu að gera þá er gott ráð að verða bara gjörsamlega snarvitlaus.

Þetta var oft svona svipað þegar amma var sem veikust. Hún fékk þá þjónustu sem hún þurfti loksins þegar aðstandendur komu í heimsókn.

26 sinnum

Áhyggjubrúðurnar mínar eru um 7 cm langar. Þær hafa býsna oft komið mér að góðum notum, sérstaklega í aðstæðum sem maður ræður ekkert við sjálfur. Eins og óveðri.

Í nótt svaf ég eins og steinn á meðan Walter fór út til að hirða upp mænishlífina sem fauk af húsinu hans. Með töluverðum látum skilst mér. Ég sem vakna ef laus þakrenna slæst við húsið.

Ég hef eignast áhyggjubrúðu sem er meira en 180 cm á hæð. Ef geta brúðunnar til að bera áhyggjur helgast af stærðinni, merkir þetta að ég mun framvegis hafa 26 sinnum minni áhyggjur. Ekki svo að skilja að verulegar áhyggjur þjaki mig í daglegu lífi en það er gott að sofa hjá töfragrip. Sérstaklega ef hann heldur utan um mann á meðan maður er að sofna.

Svonasvona

-Æ, þú hefðir nú bara átt að hringja og láta mig sækja þig, sagði hann og horfði á mig eins og ég væri dverghamstur eða kandýfloss. Hann kallaði mig samt ekki dúllu. Hann er svo vel upp alinn.

-Ég var hálfskelkuð sagði ég. Ekki svo viti mínu fjær af hræðslu að ég þyrfti að láta passa mig. Ég er stór stelpa veistu. Hef áratuga reynslu af því að sofa í mínu eigin rúmi, svaraði ég.

Ég hljómaði samt ekki eins truntulega og ætla mætti því ef ég á að segja alveg eins og er varð mér hugsað til hans í verstu hviðunum. Mér líður ennþá eins og fellbylur sé að bresta á en hef ekkert óveður mér til afsökunar. Þarf að vinna fram eftir í kvöld og má ekkert vera að því að liggja í einhverri geðbólgu.

Stormur

Getur verið að sértæk jólaskrautsröskun sé ekki lengur almennt aðventuheilkenni? Eða hefur þol mitt gagnvart ofhlæði ósmekklegra ljósaskreytinga aukist? Ég verð allavega lítið vör við blikkljós og aðrar skreytingar sem ofbjóða fegurðarskyni mínu, finnst bara flest hús og garðar ósköp hófleg og huggleg.

Ég gæti nú best trúað að einhverjar ljósaseríur hafi fokið í nótt. Ég var satt að segja frekar skelkuð í mestu látunum og gekk á með martröðum það sem eftir lifði nætur. Ég er yfirleitt ekki svona veðurhrædd en það þarf ekki mikið til að koma mér úr jafnvægi þessa dagana. Það er ástaróbermið sem er að hvekkja mig. Tekur á taugarnar að eiga eitthvað til að missa.