Mig svimar af offylli. Það er nú aldeilis gott á mig.
Við Miriam erum báðar grasekkjur en héldum upp á konudaginn með morgunverði á Gráa kettinum. Ég át HEILAN trukk. Ég meina upp til agna. Þetta er náttúrulega rugl. Ætti ekki að vera hægt. Nú þarf ég heldur ekki að borða aftur fyrr en um páska. Mér leið undursamlega í svona 40 mínútur á eftir en nú er ég á niðurtúr.
Ég er svo heppin að hafa óvenju sterkan maga. Mér hefur ekki orðið illt af ofáti síðan ég var átta ára og finnst með ólíkindum að nokkur geti lagt á sig að borða sér til magapínu en það kemur fyrir, kannski tvisvar á ári að ég fæ sykurskjálfta. Ég hef ekki látið neinn hvítan sykur ofan í mig í morgun og ég skelf ekki en ég er döpur án nokkurrar ástæðu og svo syfjuð að ég þori ekki að setjast undir stýri. Varla hafa kartöflurnar farið svona með mig svo þetta hlýtur að vera beikonsjokk.
Miriam finnst íslenski veturinn æðislegur. Mig langar til græna Englands þar sem páskaliljur vaxa villtar í febrúar.