Eva: Heldurðu að ég sé að stefna sjálfstæði mínu í hættu með því að þiggja svona marga greiða af honum?
Birta: Já.
Eva: Æ greyið mitt þegiðu. Mér finnst sultugott að þurfa ekki að redda öllu ein.
Birta: Þú spurðir.
Eva: Segðu þá það sem ég vil heyra.
Birta: Nei. Það er nóg að þú komist upp með að gera okkur að ósjálfbjarga aumingja þótt ég leyfi þér ekki að leggjast í sjálfsblekkingu í þokkabót.
Eva: Er ég ósjálfbjarga þótt ég spanderi ekki tugum þúsunda í verk sem hann býðst til að gera frítt? Það er ekki eins og ég geti gert þetta sjálf hvort sem er.
Birta: Það er stór munur á því að þurfa að reiða sig á aðstoð fagmanna og að vera háður ákveðnum einstaklingi.
Eva: Ætti ég semsagt að afþakka það sem hann gerir fyrir mig brosandi og af einskærum elskulegheitum, sem einhver annar myndi hvort sem er gera fyrir mig gegn greiðslu, bara til að halda í eitthvað meira og minna ímyndað sjálfstæði?
Birta: Nei ekkert endilega. Ekki nema þú sért sátt við að vera ‘damsel in distress’. Eða hvað þykist þú ætla að gera til að halda vogaraflinu í jafnvægi? Redda fjármálunum hans kannski? Hahaha. Eða kenna honum stafsetningu? Ég veit, þú getur talið honum trú um að hann geti ekki vaknað hjálparlaust á morgnana. Þú rífur þig bara upp klukkan fimm til að verða örugglega vöknuð á undan honum.
Eva: Kemurðu nú enn einu sinni með þessa kjánlegu vogaraflskenningu. Sko! Þetta snýst ekki um að telja stigin. Hann kann alveg að meta það þegar ég elda mat eða nudda hann…
Birta: Jamm. Hann á örugglega eftir að hringja í þig vælandi; ‘Eva ég er svangur og með vöðvabólgu geturðu komið og bjargað mér?’
Eva: Láttu mig í friði. Mér líður vel. Ég nenni ekki að búa til vandamál með því að telja stigin.
Birta: Gott og vel. Búðu þá til vandamál með því að gera það ekki. Og ekki svo spyrja nema þú kærir þig um sannleikann.
Eva: Þú ert of kröfuhörð Birta.
Birta: Og þú ert veikgeðja bjáni.
Eva: Til hvers er ég eiginlega að þessu? Það er ekki hægt að vinna rökræðu gegn sjálfum sér.
Birta: Jú ef maður ímyndar sér að maður sé tvær persónur og í okkar tilviki mun ég alltaf vinna, því ég er einfaldlega sterkari, hugrakkari og gáfaðri en þú.
Eva: Já og gífurlega hamingjusöm líka er það ekki? Birta, þú ert nú meiri aumkunarverði asninn.
-Jæja góða, ég skal leyfa þér að hafa síðasta orðið í þetta sinn fyrst þú þarft svona mikið á egóbústi að halda. Þú vinnur, það er ég sem er asninn hérna, sagði Birta. Og þótt væri dálítil móða á speglinum sá ég samt að hún brosti eins og sá sem veit betur.
—————————————-
Þú ert búin að vera ein of lengi. Ef þú myndir láta fagmann gera eitthvað sem kærastann þinn langar að gera fyrir þig þá væri það eins og ef hann færi á nuddstofu til að verða ekki of háður þér.
Posted by: Anonymous | 13.02.2008 | 12:48:47