Smá klemma

Ég get fengið nákvæmlega þá íbúð sem ég vil, fyrir 130.000 kr meira en það hæsta sem ég er tilbúin til að borga.

Ég gæti áreiðanlega galdrað fram 130.000 í viðbót en það bara ofbýður sanngirniskennd minni. Á hinn bóginn er frekar hallærislegt að missa af akkúrat því sem maður vill, fyrir skitinn 130.000 kall, sem maður getur reddað.

Nú þarf ég að hugsa út fyrir rammann.

 

Eymd

Ég ætla að loka búðinni yfir páskana. Hef svona verið að velta fyrir mér þeim möguleika að vera bara þar og vinna eins og vitleysingur. Nóg verkefni framundan. Gæti haft yfirdrifið nóg að gera 14 tíma á dag, jafnvel þótt búðin væri lokuð. Ég þarf bara svo sárlega á fríi að halda. Þyrfti helst tilbreytingu, skipta um umhverfi, brjóta upp rútínuna, hitta fólk, gera eitthvað.

Ég hlakka samt ekki baun til þess að vera í fríi. Vandinn er sá að ég nenni ekki að fara neitt, nenni ekki að gera neitt og nenni ekki að hitta neinn. Hef ekki einu sinni druslast í leikhús nema einu sinni það sem af er árinu, sótt eina tónleika og farið fimm sinnum í bíó. Sá ekkert á frönsku kvikmyndahátíðinni. Núna nenni ég ekki einu sinni í vinnuna og klukkan að ganga 10. Það væri mjög eðlilegt ef ég væri útkeyrð af þreytu eða væri að fara að gera eitthvað ógurlega spennandi í kvöld.

(Reyndar varð ég svo sjokkeruð yfir sjálfvalinn eymd minni í síðustu orðum skrifuðum að ég pantaði mér leikhússmiða í kvöld. Ætla hér með að rífa mig upp og koma mér að verki.)

 

Leyndur aðdáandi

Vinkona mín komst að því fyrir tilviljun að einhver hefur nógu mikinn áhuga á fjárhagsstöðu minni, til að kynna sér mánaðarlega hvort ég sé á vanskilaskrá eða með einhver opinber gjöld ógreidd. Ósköp krúttlegt að vita til þess að einhver óviðkomandi beri slíka umhyggju fyrir mér að það sé hluti af rútínunni að tékka á því hvort ég sé nokkuð í vandræðum. Ég hef enga trú á að það sé einhver heildsalanna minna sem stendur í þessu reglubundna snuðri því á það samstarf hefur engan skugga borið. Ég versla fyrir hámark 80.000 í hvert sinn, oftast mun lægri fjárhæðir, og staðgreiði oftar en ekki, fæ líka alltaf skjóta og góða þjónustu. Halda áfram að lesa

Kaup

Ég hef aldrei skilið hvernig fólk sem eyðir 2 klst í mátunarklefa áður en það fjárfestir í einum gallabuxum, getur hugsað sér að kaupa íbúð eftir 5 mínútna skoðun.

Ég er búin að skoða c.a. milljón íbúðir undarfarna daga og er loksins búin að finna eina sem myndi henta mér fullkomlega. Ætla að taka fagmann með mér til að kíkja betur á þá þætti sem ég hef ekki nógu mikið vit á sjálf og ef hann leggur blessun sína yfir dæmið mun ég ákalla Mammon mér til fulltingis og græja greiðslumat með hraði. Reyndar gæti farið svo að við verðum á vergangi í sumar. Það er þó engin frágangssök því ef ég þekki syni mína rétt verða þeir hvort sem einhversstaðar uppi á fjöllum, úti í sveit eða annarsstaðar þar sem þeir geta „andað“ og mér er engin vorkunn að setja búslóðina í geymslu og nýta mér aðstöðuna á Vesturgötunni í nokkra mánuði. Allavega er það vel þess virði ef ég fæ íbúð sem hentar mér til frambúðar. Vona bara að ég þurfi ekki að selja verðbréfin mín. Það eru ekki mörg ár þar til þarf að skipta um klæðningu og þá gæti komið sér vel að eiga sjóð að sækja í.

Mér hrís hugur við flutningunum en hlakka þeim mun meira til að losna við aksturinn í morgungeðveikinni.

 

Valið og kvalið

-Hvað myndirðu velja ef þú yrðir neydd til þess að hafa mök við barn, dýr eða lík? spurði Lærisveinninn silkimjúkum rómi og renndi svartlökkuðum nöglunum gegnum síða hárið sitt.

Jamm. Það er nú það. Barnið kemur ekki til greina. Reyndar held ég að hvorki dýr né lík tækju því persónulega en hvort það kæmi beinlínis til greina er annað mál. Erum við að tala um golþorsk eða fjallaljón? Eða kannski heimilisköttinn?