Gvuð er til og kannski…

Ég ætlaði svona varla að tíma að eyða sunnudagskvöldi í stefnumót en ég var búin að sjá hann í svip og fannst hann svoooooo sætur. Búin að galdra fullt en bjóst samt ekki við neinu en hann er BARA skemmtilegur. Og klár. Og pabbi.

Drottinn minn djöfull langar mig að sofa hjá honum.

 

Og eitt enn…

Og eitt í viðbót sem þú verður að skilja: andúð þín á mönnunum stendur í beinu samhengi við sorgina yfir því að eiga ekki heima í veröldinni.

Carmen ólst að hluta til upp í klausturskóla. Harður agi og mamma víðs fjarri. Hún hataði klaustrið, átti til að sýna ögrandi framkomu og nunnurnar sýndu henni kulda og afskiptaleysi. Ein nunnan hélt mikið upp á vinkonu hennar og var góð við hana, kannski af því að hún var glaðlynd og sátt við skólann. Jafnaðargeð vinkonunnar fór í taugarnar á Carmen. Einu sinni sátu vinkonurnar í svefnsalnum og töluðu saman. Þær voru bara tvær inni. Nunnan sem hélt upp á vinkonuna kom inn til þeirra og gaf henni konfektmola. Hún virti Carmen ekki viðlits. Vinkonan bauðst ekki til að skipta molanum með henni.

-Ég hef borðað marga konfektmola síðan, en sá eini sem ég man eftir er þessi sem ég fékk ekki, sagði hún mér 20 árum síðar. Hún tók ekki fram að hún hefði hatað þær báðar næstu dagana en ég veit að hún gerði það. Ekki af því að hún öfundaði vinkonuna af sælgætinu eða af því að eiga verndara innan klaustursins, heldur af því að samband þeirra vakti í henni heimþrána.

Þegar allt kemur til alls hefur fólkið sem ég og þú hötum sjaldnast svikið okkur um konfektmolann sem það hefði getað deilt. Yfirleitt hefur það ekki gert neitt af sér, annað en að vera sátt við hlutskipti sitt í heiminum.

Þessvegna

Smámsaman rennur upp fyrir þér að sérstaða þín byggist ekki á fötunum sem þú klæðist eða költinu sem þú kennir þig við. Þér verður ljóst að þú ert á vissan hátt eins og tökubarn frá fjarlægum heimshluta. Þótt þú sért uppalinn í heiminum er eins og blóðið í þér tilheyri allt annarri veröld sem þú verður að heimsækja til að átta þig á því hver þú ert. Halda áfram að lesa

Brill

Það hentaði mér ekki beinlínis vel að bíllinn skyldi bila viku áður en ég átti von á satanískum reikningi fyrir utanhússviðgerðunum. Viðgerðarkostnaðinum var skipt niður á tvö ár og um síðustu áramót þurfti ég að taka lán til að eiga fyrir honum. Það átti ekki að gerast aftur enda hata ég að sjá mínus á bankareikningunum mínum en allt leit út fyrir að bílabilunin hefði klúðrað fyrir mér ánægjunni af grænni tölu í stað rauðrar. Gól ég því seið og hét á Mammon að forða mér frá rauðu.

Rukkun vegna uatanhússviðgerðanna er komin inn á heimabankann hjá mér. Ef maður tekur greiðsluseðilinn fyrir fyrri hlutanum og dregur frá viðgerðina á bílnum, fær maður út töluna á þessum nýja. Upp á krónu.