Laga þá lufsulegu?

Einhleypar konur á mínum aldri eru ýmist í ástarsorg, að bíða eftir að draumaprinsinn sýni þeim áhuga eða komnar með krónískt ógeð á kalkyninu. Það heyrir til algerra undantekninga ef einhleyp kona er ekki að glíma við einhver strákaissjú og þær undantekningar eru skápalessur, báðar. Halda áfram að lesa

Bara að gera ykkur greiða

Vinkona mín átti einu sinni tengdamóður sem var mjög góð kona. Stundum of góð. Allavega áttaði vinkona mín sig á því hvað blessaðri konunni hlaut að líða illa í góðmennsku sinni, þegar barn sem hún þekkti ekki og hafði aldrei séð, hringdi í hana og þakkaði fyrir fermingargjöfina. Vinkona mín kom af fjöllum. Þetta var frænka mannsins hennar, hann hafði ekki séð hana síðan hún ver tveggja ára og vinkona mín aldrei. Þeim var boðið í fermingarveisluna hennar úti á landi. Hvorugt þeirra taldi þennan útskriftardag ókunnugrar telpu úr Þjóðkirkjunni, nógu mikilvægan til að taka þriggja daga frí og útvega gistingu úti í hundsrassi og auk þess voru þau frekar blönk. Þau ákváðu að senda skeyti og láta þar við sitja. Halda áfram að lesa

Þetta smáatriði

Stelpugreyið, sagði hann samúðarfullur, hana langar svo að vera listamaður en hefur bara ekkert í það nema innistæðulaust sjálfsálit og afburða gáfur. Og það versta er að hún er svo vitlaus að halda að hún komist eitthvert á því.

Af menningarlífi mínu margháttuðu

Má vel vera að það sé lítt við hæfi að staupa sig á dönskum brjóstdropum og íbúfeni á Vínartónleikum en só bí itt, það hefði verið ennþá verra að hósta. Ég var búin að kaupa miðana og strákarnir vildu ekki nota þá svo ég dró Sigrúnu með mér.

Skemmti mér konunglega þrátt fyrir snýtupappír í annarri hendi og hóstamixtúru í hinni. Meðalaldur tónleikagesta var líklega 65 ára. Ég er nú dálítið hissa á því að sjá ekki fleira ungt fólk á svona léttum og skemmtilegum tónleikum sem gera í raun engar kröfur um að maður hafi „vit“ á tónlist til að njóta þeirra. Skil heldur ekki hverslags ómenning er eiginlega hlaupin í Darra. Haukur hefur aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um tónleika nema þá bara eitthvert dauðarokk og annan viðbjóð en við Darri vorum fastagestir í Salnum í fyrravetur og nú virðist hann algerlega búinn að missa áhugann. Frekar sorglegt finnst mér.

 

Laust

Það er ekki hægt að vera hamingjusamur án ástar. Sama þótt þú lærir allar sjálfshjálparbækur veraldar utan að. Trúið mér, þær ljúga. Ef fólk væri hamingjusamt án ástar, væru allir einhleypir, því það er vissulega þægilegra og einfaldara líf. Ég endurtek, það er ekki hægt að vera hamingjusamur án ástar. Samt er reyndar alveg hægt að vera einhleypur án þess að visna upp af óhamingju. Það er ekkert auðvelt en það er hægt. Það er hægt að elska og vera elskaður þótt maður sé einhleypur. Ekki almennilega en samt nógu mikið til að lifa af. Halda áfram að lesa

Tsssjúh!

Áður en ég fór í jólafrí sagði ég Búðarsveininum að ég ætlaði að nota tækifærið og taka út öll veikindi sem mætti búast við næsta árið fyrst ég væri heima í afslöppun hvort sem væri. Ég veiktist þó ekki fyrr en í gær og er búin að vera eins og draugur í dag. Hnerrandi draugur með hálsbólgu. Druslaðist ekki í vinnuna fyrr en um 11 leytið. Við Anna vorum búnar að plana skrabblkvöld en ég ákvað að fara frekar heim í bælið og ná þessu úr mér.

Fullt tungl í dag. Ég eyddi einu símanúmerinu enn úr gemsanum mínum. Það er ótrúlega árangursríkur smágaldur sem útheimtir hvorki þekkingu né viljastyrk.

 

Hreinar línur

-Þegar maður er frávik skiptir máli að einhver skilji mann. Þú skilur mig betur en nokkur annar. Allavega hefur enginn verið jafn góður við mig og þú.
-Næs að heyra skjall en ég er ekki nógu vitlaus til að kaupa það. Þú segir þetta til að styrkja jákvæða hegðun svo ég verði ennþá betri við þig,
sagði hann og kímdi.
-Ég er að tala í einlægni elskan mín, og ég hef ekki einu sinni ástæðu til að skilyrða þig því nú verðum við að slíta þessu sambandi.
-Já. Þig vantar maka og ég er fyrir þér. Halda áfram að lesa