Bilun?

Ég hef áhyggjur af því hvað ég hef miklar áhyggjur af geðheilsu minni. Mér finnst það bara dálítið sjúklegt.

Sjálfsvirðing beðmálalufsunnar

Í gær sá ég sjónvarpsþátt um lufsu sem stendur uppi húsnæðislaus, sökum eigin afglapa. Vill kaupa íbúð en reynist ekki lánshæf (vegna langvarandi verslunarbrjálæðis). Engin leiguíbúð sem hún ræður við er nógu fín fyrir hana. Hún borðar á veitingastöðum og notar leigubíla, því skórnir hennar eru ekki hannaðir til göngu. Hún fær nett dramakast yfir því að geta ekki keypt fleiri skópör til viðbótar þessum 100 sem hún á fyrir. Hún leitar „ráða“ hjá manni sem er margbúinn að fara illa með hana. Hún tekur geðbólguna út á vinkonu sinni sem bauðst ekki til þess að leysa málin fyrir hana og klikkir út með því að þiggja af henni lán, hring sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir vinkonuna. Halda áfram að lesa

Óhreinu börnin hennar Evu

Andlit byltingarinnar er innblásinn af fítonskrafti eftir uppákomuna á miðvikudaginn. Um síðustu helgi leið honum svo illa í pólitíkinni að ég hélt jafnvel að frekari aðgerðir yrðu saltaðar í bili. Ég veit ekki alveg hvað gerðist en hann beit einhvernveginn í sig að sinnuleysi og óvirkni fullorðna fólksins væri bara sjálfskapað víti en ekki örlög.

Pysjan fer austur fyrir fjall í dag til að sækja liðsauka. Ég játa á mig talsverðan kvíða yfir þátttöku hans. Þótt hann hafi alla tíð verið 10 sinnum þrjóskari en bróðir hans, og þar með ágætt efni í aktívista, finnst mér hann alltaf vera hann litli minn.

Áríðandi!

Nokkrum klukkutímum fyrir ögurstund kom í ljós að unnusta Byltingarinnar kemst ekki með okkur í leikhúsið. Ég ætlaði að taka Leónóru með í staðinn en hún er þá hjá ömmu sinni í sveitinni. Svona uppákomur gefa manni alveg nýja sýn á kunningjahópinn. Í gærkvöld og í morgun er ég búin að átta mig á því að mínir vinir og kunningjar eru: Halda áfram að lesa

Nostalgía

Ég sakna hans ekki.

En samt sem áður er hann eini maðurinn sem ég hef kynnst sem vaknaði kl. 7:30 á sunnudagsmorgni og fór fram úr rúminu til að gera eitthvað.

-Hvert ert þú að reyna að laumast? Ætlarðu að fara á fætur án mín?
-Ég ætla að pissa án þín ef þér er sama.
-Komdu svo aftur.
-Nei, komdu frekar á fætur. Ég er með nýtt lag, þú þarft að skrifa texta fyrir mig.
-Svo förum við og tínum krækling. Eða skoðum eyðibýli.
-Hvortveggja! Og ég festi upp hillurnar og svo höldum við matarboð í kvöld.
-Komumst við yfir það?
-Já og ef þú kemur þér fram úr fyrir 8 getum við slappað af líka.

Af hverju í fjandanum þurfti hann að reynast sami andskotans drullusokkurinn og allir hinir?