Áríðandi!

Nokkrum klukkutímum fyrir ögurstund kom í ljós að unnusta Byltingarinnar kemst ekki með okkur í leikhúsið. Ég ætlaði að taka Leónóru með í staðinn en hún er þá hjá ömmu sinni í sveitinni. Svona uppákomur gefa manni alveg nýja sýn á kunningjahópinn. Í gærkvöld og í morgun er ég búin að átta mig á því að mínir vinir og kunningjar eru:

a) Hluti af fjölskyldu. Það er ekki viðeigandi að bjóða bara öðru systkina af tveimur eða helmingnum af nýbökuðu pari sem hittist aldrei nema á sunnudögum.

b) Nógu miklir menningarratar til að kjósa fremur að liggja í þynnku á sunnudegi en að fara í leikhús.

c) Nógu mikil bókmenntaviðrini til að flissa fíflalega og segja Klaufar og kóngsdætur, er það ekki barnasýning?

d) Búnir að sjá stykkið.

Óska hér með eftir félaga til að fara með okkur í Þjóðleikhúsið kl 13:00 í dag, sunnudag.