Bílastæðamafían

Síðustu daga hafa tveir bílastæðaverðir húkt í bílahúsinu á Vesturgötu eða á stéttinni fyrir utan það allan daginn. Í hvert sinn sem bíll kemur í húsið eða fer, skrifar annar þeirra eitthvað í bók á meðan hinn drekkur kaffi.

Þetta hljóta að vera mjög mikilvægar upplýsingar sem þeir eru að skrá, fyrst bílastæðasjóður er með tvo menn á launum við það. Halda áfram að lesa

Fyrirboði um nefborun?

Ég er að prófa nýja gerð af tarotspilum sem ég næ ekki alveg kontakt við. Þau halda því fram fullum fetum að í dag muni dramatískir atburðir eiga sér stað. Síðasta helga véð muni falla, einhver hafi af mér mjög persónuleg afskipti þvert gegn vilja mínum og ég muni tapa sakleysi mínu.

Ég hlýt að túlka þetta á þann veg að einhver muni reyna að bora í nefið á mér. Nasirnar eru allavega einu líkamsop mín sem enginn hefur ennþá svo ég muni, fálmað í eða gert sig líklegan til að slefa á að mér forspurðri.

Crowley segir hinsvegar að þetta verði afskaplega venjulegur dagur. Ég treysti hans spilum satt að segja betur.

Leiðrétting

Var partý? spyr ég og legg frá mér krossgátuna.
Nei, ég svaf í nótt, svarar hann.
-Og hvað rekur þig á lappir kl. 7 á sunnudagsmorgni?
-Ég vaknaði til að hitta þig. Ef ég þekki þig rétt verður þú farin að vinna um hádegi.
-Vaknaðirðu alvöru til að hitta mig?
-Mmmm. Má ég leggjast hjá þér?
-Já, ef þú ferð úr skónum,
segi ég og færi mig.
-Mig langaði að sofa lengur, segir hann, en ég hef vanrækt þig og þá fer postulínsbrúðan í þér að halda að mér sé sama um þig. Ég vil frekar leiðrétta það en að sofa fram eftir.

Höldum hvort um annars úlnlið. Krossgátan má bíða. Maðurinn er aldrei alveg einn.

Úff!

-Hrútur fær gervilimi, svo hann geti „lifað eðlilegu lífi“. T.d. að ferðast með fjölskyldubílnum og liggja í stofusófanum.

-Þrálátur hiksti læknar ungan mann af félagsfælni. Hvernig í ósköpunum, það kemur ekki fram.

-„Listamaður“ hylur hús með osti. Líklega hefur engum dottið í hug að meindýr drægi fljótt að.

80-90% sjónvarpsþátta sem boðið er upp á hjá rúv og skjá einum eru í besta falli heimild um forheimskun og andlega geldingu múgans. Það er nóg að sjá einn úr hverri þáttaröð til að vera sérfræðingur í íslenskri alþýðumenningu.

Þegar ég á annað borð hef tíma til að horfa á sjónvarp, vel ég einn heimildaþátt (rúv hefur staðið sig á miðvikudagskvöldum) og einn afþreyingarþátt. Boston Leagal núna, House á meðan þeir þættir voru sýndir. Ég hef séð einn af aðþrengdum eiginkonum og líst vel á þá líka. Restin er rusl.

Sex & the city virðist vera voða vinsælt sjónvarpsefni. Ég hef gaman af létt poppaðri kynjafræði (svo framarlega sem hún er sett fram sem popp en ekki tekin of alvarlega). Ég gæti sennilega hugsað mér að fylgjast með þeim ef ég væri ekki haldin þvílíku ógeði á aðalpersónunni að ég verð líkamlega reið þegar hún birtist á skjánum.

Ekki svo að skilja að ég eigi neitt bágt. Ég hef nóg annað að gera en að horfa á sjónvarp. En mér finnst dálítið sorglegt að annað eins kraðak af innihaldslausum hvunndagshúmor og sýndarveruleikaraunsæi skuli ganga svona vel í landann.

Innlitsþátturinn

Ég verð í þættinum Innlit-útlit kl 21 í kvöld.

Ég hef að vísu áhyggjur af því að áherslan verði meiri á mitt sauðvenjulega heimili en búðina mína, sýnist það svona á auglýsingunni. Ef það fer svo verð ég frekar spæld. Allt í lagi að hórast í einhverjum sjónvarpsþætti ef það verður til þess að stórir hópar og margir koma hingað í kaffi og kynningu. Að öðru leyti hef ég ekki áhuga á að kynna mig sem innanhússarkitekt eða tískuspengil.

—–

Uppfært: Innlitsþátturinn er kominn á vefinn. Ég er rétt framan við miðju.

Allt bókfært í kerfinu

Ég hef óbeit á stöðumælasektum, enda er það argasta guðlast gagnvart honum Mammoni mínum að kalla yfir sig slíkan ófögnuð. Þó gerðist ég nýverið sek um slíkt guðlast og hef nú, auk friðþægingarfórnar til Mammons, greitt sekt mína innheimtumönnum bílastæðasjóðs.

Sektina borgaði ég í heimabankanum en sá þá mér til furðu að dagsetningin á greiðsluseðlinum stemmdi ekki við dagsetninguna á handskrifaða miðanum. Halda áfram að lesa

Tungl

Magnaðasta tungl ársins.

Fórum út og horfðum á það gyllt og gríðarstórt, snerta sjóndeildarhringinn og hoppa upp á himininn aftur.

Fyrr í dag fór ég með Byltinguna upp í Heiðmörk svo hann gæt bætt fyrir galdurinn sem verðir laganna klúðruðu fyrir honum síðustu nótt.

Söguleg fermingarveisla í millitíðinni.
Þetta var góður dagur.