Allt bókfært í kerfinu

Ég hef óbeit á stöðumælasektum, enda er það argasta guðlast gagnvart honum Mammoni mínum að kalla yfir sig slíkan ófögnuð. Þó gerðist ég nýverið sek um slíkt guðlast og hef nú, auk friðþægingarfórnar til Mammons, greitt sekt mína innheimtumönnum bílastæðasjóðs.

Sektina borgaði ég í heimabankanum en sá þá mér til furðu að dagsetningin á greiðsluseðlinum stemmdi ekki við dagsetninguna á handskrifaða miðanum.

Ég vildi ekki taka áhættu á að móðga Mammon meira og hringdi því í bílastæðasjóð til að leita skýringa. Fyrir svörum varð karl nokkur all íhreytinn. Eftir útskýringar mínar var samtalið á þessa leið:

Eva: Ég er að velta fyrir mér hvers vegna er ekki sama dagsetning á miðunum. Ég er nánast viss um að sú sem er á handskrifaða miðanum er rétt.
Útsendari bílastæðasjóðs: (urrandi) Hin dagsetningin er rétt. Hún er inni í kerfinu.
Eva: En ef hún er rétt, af hverju ætti þá stöðumælavörðurinn að skrifa allt aðra dagsetningu á miðann?
Ú: Nú, af því að þann dag fékkstu sektina.
E: Já, einmitt. Svo það er þá rétta dagsetningin er það ekki?
Ú: Jújú, það má líta þannig á það.
E: Og þá er dagsetningin á greiðsluseðlinum væntanlega röng?
Ú: (mjög pirraður) Neinei,hún er bara í kerfinu.
E: Afsakaðu ónæðið en á ég að greiða upphæðina á greiðsluseðlinum eða eru komnir vextir á hana?
Ú: Neinei, þú bara greiðir upphæðina á seðlinum.
E: En samkvæmt dagsetningunni á seðlinum er ég orðin allt of sein með þetta, ég vil ekki fá fleiri rukkanir.
Ú: Þú færð enga rukkun, þetta er allt bókfært hjá okkur.
E: Í kerfinu semsagt?
Ú: Jájá, hér er allt á hreinu. Allt bókfært.

Ég greiddi upphæðina á greiðsluseðlinum og gerði ekki frekari tilraun til að skilja þetta.