Ó mæ god

Lykta ég eins og gamalmenni? spyrð þú.
Þetta getur maður kallað að spyrja ranga konu rangrar spurningar. Setjum sem svo að sú væri raunin. Finnst þér líklegt að ég segði þér það?

Reyndar hef ég ekkert velt líkamslykt þinni fyrir mér enda hef ég aldrei orðið fyrir áhrifum af henni. Mér finnst ólíklegt að þú lyktir eins og gamalmenni. Mér finnst sennilegast, svona fyrst ég er komin út í þessar pælingar, að þú lyktir eins og maður á þínum aldri á að gera. Ég hinsvegar veit það ekki, því ég hef aldrei þefað af þér. Halda áfram að lesa

Tiltekt

Stóð í tiltekt heima fram á nótt og er búin að verja því sem af er deginum í að smíða rafeindatæki.

Ég ætlaði eiginlega að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að grynnka á ruslasafni Ygglibrúnarinnar í dag en dauðlangar að lýsa hér með yfir helgarfríi og kíkja á sunnudagskrossgátuna.

Mér var boðið í tvö Júróvissjónpartý í gær en langaði ekki baun. Keppnin hefur aldrei höfðað til mín og ég hef yfirleitt ekki úthald í meira en 3-4 lög en auk þess hrís mér hugur við því að þurfa að blanda geði við fleiri en 2 ókunnuga í einu. Ég er að hugsa um að ráða mig á einhvern fjölmennan vinnustað í 4-5 tíma á dag. Það myndi allavega þvinga mig til að mynda einhver félagsleg tengsl. Ég er hægt og rólega að verða eins og Gísli á Uppsölum.

VG

Aldrei hefði hvarflað að mér að óreyndu að við yrðum beðnar um að selja lopapeysur til Afríku. Viðskiptin hreinlega þefa okkur uppi.

Ég er að hugsa um að nefna viðskiptagaldrana mína VG.

Dindilhífihælar

Thailenska búðin við Engihjalla finnst hvorki í símaskránni né á gulu línunni. Ég var samt svo þrælheppin að finna dindilhífihæla í mínu númeri í dag!

Ég get reyndar alveg hugsað mér að eiga fleiri skó sem passa á mig, þ.á.m. fokkmíbúts, ég hef aldrei átt slík.

Veiðarfæri

Annaðhvort hefur álitlegum karlmönnum í umferð fjölgað með hraði síðustu vikuna eða þá að minn standard hefur lækkað all snarlega.

Í gær hitti ég af tilviljun gamlan félaga sem er ekki fíkill og er viðhengislaus í augnablikinu. Hann fékk símanúmerið mitt.

Í dag mun ég hitta sætan sölumann sem virðist við fyrstu kynni allavega, hafa sæmilega heilbrigð pólitísk viðhorf.

Veðurspáin gerir víst ekki ráð fyrir dónalega stuttu pilsi næstu daga og ekki hef ég enn fundið dindilhífihæla í mínu númeri. Kannski ætti ég í staðinn að ganga með nokkur jarðarber á mér og leika þau lostafullum vörum þegar eintök af hinu hærðara kyni verða á vegi mínum. Þeir ku víst vera svo einfaldir þessar elskur.

Í alvöru

Seyðkonan: Það er æðislegur maður að vinna þar. Ég meina æðislegur, þú veist, í alvöru æðislegur. Svo er líka annar en hann er svona meira eins og fyrir þig.

Jamm. Það er harla ólíklegt að við eigum nokkurntíma eftir að slást út af karlmanni.