Stefnumót í bígerð

Mér hefur borist kvörtun um að ég skrifi of mikið um umhverfismál og of lítið um karlafar.

Skýringin er líklega sú að umhverfismálin valda mér meira hugarangri en karlmannskrumlur og er það vel.

Auk þess er þetta mín vefbók og ég sjálf sem ræð hvað ég fjalla um hérna :Þ

Annars stendur til að ég hitti óséð eintak af hinu hærðara kyni í dag svo þeir sem lifa sig inn í ástir mínar og örlög geta búið sig undir hefðbundna sápuóperu.

Held ég.

Helgarfrí fram að hádegi!

Nú er vika þar til ég get reiknað með að sjá árangur af ástargaldrinum. Nýtt tungl í dag en ég er ekki í neinu skapi til að galdra. Langar meira að gefa einhverjum uppskrúfuðum monthana undir fótinn og segja honum svo á kjarnyrtri íslensku hvað mér finnst um hann þegar hann fer að sperra á sér dindilinn, bara til að sjá sjallaglottið ummyndast í ráðleysisviprur. En svoleiðis gerir maður ekki. Ekki ef maður er almennileg manneskja. Halda áfram að lesa

Öfmul

Í dag héldum við fyrsta barnaafmælið í Nornabúðinni.

Ég yrði ekki hissa þótt fleiri öfmul fylgi í kjölfarið. Seyðgerður mín er nefnilega sannkallaður leikskólakennari í hjarta sínu.

Þegar elliheimilin koma í heimsókn skal ég sjá um að hafa ofan af fyrir gestunum. Mér er ekkert illa við börn ég kann betur við þau í stykkjatali en hópum. Eldri borgarar verða kannski ekki eins yfir sig hrifnir af súkkulaðipöddum en þeir iða heldur ekki eins mikið þótt þeir innbyrði sykur.

Þórfreður

Þórfreður veldur mér heilabrotum.

Um tíma taldi ég mig þekkja manninn á bak við dulnefnið. Allavega hefði það verið mjög líkt manni sem ég þekki að kalla sig Þórfreð.

Svo kom í ljós að sá sem ég hélt að væri Þórfreður var i rauninni Du Prés. (Eða það er ég rúmlega sannfærð um) Sem ég tel víst að sé sá sami og einu sinni kallaði sig Dramus.

Ég á erfitt með að trúa því að engin tengsl séu milli Þórfreðar og Dramusar. Samt hef ég ekkert fyrir mér í því nema nöfnin.

Fyrsta galdrabrúðan sem ég bjó til var gerð úr dagblöðum og lopa. Hún var ekki falleg en galdurinn heppnaðist nú samt vel. Síðar varð til brúða sem heitir Dramus en þjónar sama tilgangi og blaðagöndullinn.

Kannski bý ég einhverntíma til galdur sem heitir Þórfreður.

Lopapeysa á Næsta bar

Um daginn hitti ég sætan sölumann sem er á lausu og kemur samt ekki fyrir eins og hringli í hausnum á honum. Hann stoppaði lengur en hann þurfti. Mun lengur.

Ég hef svona verið að velta fyrir mér möguleikanum á að hafa samband við hann en ætlaði að ræða við kunningjakonu mína, sem vill svo til að þekkir hann, og fá umsögn, áður en ég færi að eyða dýrmætum tíma mínum í að dindilhosast utan í lambakjöti sem er svo kannski alki eða eitthvað þaðan af verra. Halda áfram að lesa

Andlit á glugga

Ég sofnaði aftur í morgun, aldrei þessu vant. Líklega hefur farið meiri orka í Ian Anderson en ég gerði mér grein fyrir. Ég vaknaði aftur um kl 8 með andlit á glugga, í bókstaflegri merkingu. Ég dró ekkert fyrir gluggann í gærköld og þarna blasti andlit við mér. Það er verið að gera við blokkina að utan og hinir skeleggu verkamenn sem dunduðu sér jafnan korterslangt á svölunum hjá mér síðasta sumar, eru komnir í gírinn aftur.

Ég fór í sturtu og þegar ég kom aftur var andlitið horfið. Vinnupallurinn er ennþá upp við gluggann svo hugsanlega koma þeir aftur í dag. Þeir eru líklega í 8-9 pásunni núna.