Það reddast

Þegar ég blogga ekki dögum saman er það undantekningalaust merki um mikla vinnu. Ég reiknaði reyndar með því fyrir einni viku að vinnan væri að snarminnka (og þar með tekjurnar) en það eru ekki örlög mín að vera blönk.

Málarinn er semsagt búinn að vera stuði og ég er besta módel sem hann hefur haft, segir hann. Útilokað að ég nenni að standa í því að sýna afraksturinn á blogger en bráðum, bráðum ætlar Anna að hjálpa mér að setja upp almennilega vefsíðu og listamaðurinn er þegar búinn að gefa góðfúslegt leyfi fyrir birtingu.

Ég þarf samt að fara á stúfana og finna eitthvað meira að gera um leið og ég get verið dagpart frá búðinni. Málarinn hefur ekki grætt krónu á þessum myndum ennþá og getur varla haldið mér á floti mjög lengi. En það reddast. Það eru örlög mín ap reddast. Ég ákvað fyrir margt löngu að hafa það þannig.

Sniff

Æ Elías.

Hjartað í mér sýgur alltaf pínulítið upp í nefið þegar hann fer en kommonsensinn er verulega ánægður.

Og daginn eftir kemur sæti sölumaðurinn í Nornabúðina og spyr hvort ég eigi galdur til að hætta að reykja.

Þetta er greinilega hægt

Keli kom og fór. Öll fjölskyldan kom í heimsókn í Nornabúðina og við áttum mjög ánægjuleg stund saman.

Ég hef aldrei skilið almennilega hvað fólk á við með því að „hafa gaman af börnum“, rétt eins og börn séu einhver ákveðin dýrategund. Börn eru jafn mismunandi og annað fólk og ég hef gaman af því að umgangast skemmtileg börn sem kunna sig en hef lítið úthald gagnvart væluskjóðum og frekjugrísum. Stillt og kurteis börn eru oft hlédræg og feimin en dætur Kela og Linditu eru lifandi sönnun þess að vel er hægt að kenna börnum mannasiði án þess að þau verði bæld og ósjálfstæð. Telpurnar eru opnar og ákafar, áhugasamar um allt sem fyrir augu ber, spyrja mikið og hafa mikið að segja en eru þó svo prúðar að þær snerta ekkert í leyfisleysi og biðja m.a.s. um orðið með því að rétta upp hönd ef margir eru samankomnir.

Bæði Huldu Elíru og Mirjam langaði í sama hálsmenið en það var bara eitt til. Á mörgum heimilum hefði það kostað rifrildi og fýlu fram eftir degi en þessar stelpur leystu málið í algerri friðsemd. Ég hef enga trú á því að svona börn verði til fyrir einskæra heppni. Ég legg því til að foreldrar þeirra hætti að vinna fyrir norska ríkið og taki þess í stað að sér uppeldiskennslu. Þau gætu ferðast um heiminn og notað telpurnar sem auglýsingu. Ég er allavega viss um að margir myndu borga morð og milljón fyrir önnur eins börn.

Garún Garún

Að taka frið og vinsemd fram yfir stríð er ekki það sama og að vera tilbúinn til að láta valta yfir sig.

Þumalputtaregla sem hefur reynst mér vel hljóðar svo:
-Ef ég elska þig færðu tækifæri til að fara illa með mig. Eitt tækifæri. Ef þú notar það verða þau ekki fleiri.
-Ef ég elska þig ekki færðu ekki tækifæri til að fara illa með mig. Þú getur reynt það en þú tekur þá líka afleiðingunum.

Ég mæli eindregið með því að þú takir þennan draugagang út á einhverjum öðrum en mér. En ef þú vilt leiðindi, -þá geturðu fengið þau.

Vatnsþvottaópera

Þegar ég loksins gæti kannski gefið mér tíma til að skrifa, er líf mitt of laust við að vera áhugavert til að hægt sé að leggja það á lesendur. Öðru máli gegnir um sápu og sorgir annarra. Það hreinlega freyðir upp úr á vígstöðvum vina og vandamanna og enn og aftur rekst ég á þessa gömlu þversögn; það sem er í frásögur færandi er of viðkvæmt til að hægt sé að tala um það. Sú staðreynd að ekki færri en fimm manns munu taka þessa færslu beint til sín, segir kannski eitthvað um það hvað ég orðin mikið dramleysiseyland. Það liggur satt að segja við að ég hafi áhyggjur af því hvað líf mitt er áfallalaust. Þetta er eiginlega alls engin sápuópera. Kannski bara vatnsþvottaópera?

Annars lítur út fyrir að vinnuálagið á mér muni minnka á næstunni. Útgjöldin eru samt ekkert að lækka svo ég er ekki ennþá búin að taka kátínukast. Bót í máli að ég hef sjaldan staðið frammi fyrir auðveldara verkefni en því að finna aukavinnu sem er áhugaverðari en bókhald.

Húsfundur

Í gær sat ég stysta (bjánaleg stafsetning) húsfund sem ég hef mætt á síðan ég flutti í blokkina. Hann var ekki nema 70 mínútur. Á fundinum var tekin ein ákvörðun. Ákvörðun um að fresta fundinum.