Allt fer þetta einhvernveginn

Þetta verður allt í lagi
sagði ég sannfærandi
og lét sem ég tæki ekki eftir efanum
sem seytlaði niður í hálsmálið
og rann í köldum taum niður bakið.

Þetta bjargast áreiðanlega
sagði ég ákveðin
og þóttist ekki finna hvernig ég kipptist til
þegar kvíðinn skreið upp í buxnaskálmina
og nartaði í hnéð.

Allt fer þetta víst einhvernveginn
tautaði ég
og bauð hættunni heim
á meðan uggurinn gróf sig undir hörundið
og bjóst til vetursetu.

Og þegar allt fór á versta veg
og angistin skaut rótum
á bak við þindina
sá ég ekki ástæðu til að líta í spegilinn.
Allt fór þetta jú einhvernveginn
og ég varð ég ekki einu sinni hissa.

Ryk

Rykið hefur gert sér hreiður undir rúmi mínu,
gotið ljósgráum rykhnoðrum
sem fjölga sér stöðugt.

Stundum skríður það undir sængina
í leit að æti.
Kitlar nasirnar
Ertir hálsinn.
Dregur úr koki mér
máða vini,
ósögð ástarorð,
hálfköruð ljóð
og fóðrar unga sína.

Af og til
sæki ég kúst
og sópa rykhreiðrinu undan rúminu.

Í þetta sinn
hef ég sópað því undir mottu.

Dögun

Losa auglokin rólega,
bara litlar rifur
rétt til að átta mig á deginum.
Gráleit rönd við gluggabrún
seytlar undir rúllutjaldið.

Of snemmt.
Of dimmt.
Augnlok síga,
límast saman á ný.

Nei! ekki of snemmt,
ekki í dag.
Kippi augnlokunum upp með smelli,
dreg frá glugganum.

Hvítur snjór hefur fallið
á óræktina í garðinum.
Skefur yfir gangstéttina
heim að húsinu.

Fel svitastokkinn náttkjólinn
undir koddanum,
breiði teppi yfir rúmið.
Tilbúin
að takast á við daginn.

Flísar

Undarlegt hvað sumt fólk hefur góða sjón
og það með bjálka skagandi út úr auganu.
Bjálka sem ná alla leið inn að rúmgafli hjá manni.
og rekast í tærnar á meðan maður sefur.

Suma daga vaknar maður
með flísar í tánum
og þorpsbúann sitjandi á rúmstokknum
rekandi bjálkann í rúmgaflinn,
með flísatöng á lofti
til þjónustu reiðubúinn.

En þrátt fyrir alla þessa hjálpsemi
hefur enginn reynt
að plokka myrkrið undan sænginni.

Gróður

Sjáðu grösin í garði nágrannans.
Saklausu, litlu kærleiksgrösin
sem teygja sig í fagurgrænni gleði í átt til sólar
og sjúga þyrstum rótum
svala úr frjósömum sverðinum.

Ó, hve þau dafna vel í þessum garði,
snyrt eftir þörfum og nærð á hverju sumri
mönnum til yndis.

Í minni lóð vex aðeins
gulur sinuflóki.
Svo rennblautur af gamalli rigningu
að hann brennur ekki einu sinni
þótt eldur sé borinn að honum.
Og þó er það eina leiðin til að uppræta hann.

Á lóðinni minni
vaxa puntstrá með haustinu.
En hver kærir sig
um þessháttar fegurð?

Rof

Hvað sjá menn svosem
við uppblásið rofabarð?

Fáein græn strá
í svörtum sandi
bera vitni
viðleitni mannanna
í eilífri baráttu við vinda sjó
og sand.

Ekki lái ég þér
að hugsa til framandi stranda.

Þar er ekki sandurinn auðnarland
heldur gylltur af sól og hlýr.

Þar hlaupa fallegar stúlkur
skríkjandi út með öldunni
og börn byggja kastala
í skuggi pálmatrjáa.

Þar er ekki krían
vomandi yfir,
tilbúin að gogga í þig
þegar minnst varir,
engir vindar blása sandi í augu þín
og ekki bera öldur þeirra stranda
lík barna þinna að landi.

Auðvitað ferðu þangað,
auðvitað.

Samt kemurðu aftur
og aftur
á hverju vori
með handfylli af grasfræi

í þeirri staðföstu von
að eitt þeirra skjóti rótum.