Listamenn loka ekki augunum

1

Ilmur framandi jurta
af hörundi þeirra.
Safinn sprettur fram undan fingurgómum.
Vildi sökkva tönnunum
í freskjumjúkt holdið og sjúga.

En auðvitað snerti ég aðeins yfirborðið
því listamenn loka ekki augunum.

Þó gerist það stöku sinnum
að eftir á finn ég húðfrumur
undir nöglunum

2

Stundum sveittir búkar,
holdið skvapkennt,
rassalykt.

Sál mín varin, geymd,
sefur rótt í efstu kommóðuskúffunni á meðan
því listamenn loka ekki augunum.

Eftir á tek ég hana í faðm mér,
þrýsti fast
og ber hana í fangi mér út í Landsbanka
þar sem stimpillinn smellir fyrirgefningarkossi
á vangoldna reikninga.

Yfirbót í formi dráttarvaxta
borin fram með feginleik
og sljó augu gjaldkerans gera sér enga grein
fyrir þýðingu þess
enda sál hans sjálfsagt blundandi
í einhverri skúffunni
og listin víðsfjarri.

Blár miði fyrir gulan.
Og sál mín ber mig í faðmi sér
út í sólríkan rigningardag.

3

Stundum sé ég kunnuglegu andliti bregða fyrir
í Bónus eða Rúmfatalagernum.

Þú hér? segir andlitið
“Hví sé ég í augum þér
kirsuberjavið og nautalundir
þegar hendur þínar grípa spónaplötur og pasta?”

“Af því að listamenn loka ekki augunum”
segi ég
og bæti í körfuna gengisfelldum draumi.

4

Dag nokkurn stendur Veruleikinn á tröppunum;
“ég hef saknað þín”
segir hann.

Í flýti treð ég sálinni niður í skúffuna
og skelli,
klemmi hana í ógáti, mer.

Úr fjarlægð berast mér kvein hennar að eyrum
en skeyti því engu.
Býð gestinum kaffi
og hafna honum síðan kurteislega.

Því listamenn loka ekki augunum
og meiddri sál þarf að sinna.

Hlutskipti

Þegar rokkarnir voru þagnaðir
spann ég söguþráð á hljóðsnældu
og fléttaði þætti í símalínu.

Þegar rauðir þræðir röknuðu úr vef mínum
sló ég örlög mín á lyklaborð
og tengdi vef veraldarinnar.

Þegar nornir tjölduðu sali mína
nýju klæðum keisarans
birti ég nekt mína á breiðtjaldi.

Af sjálfsdáð hef ég dregið þær línur
sem varða leiðina,
á stundum skrifað undarlegustu hendingar

og hlutskipti mitt veltur á því einu
hvernig hlutnum er skipt.

Hugarró

Ekki sakna ég þagnarinnar
sem skriðin úr hugskoti nágrannans
hvískraði ógnarþulur
við óvarinn glugga bernsku minnar.
Næturlangt.
En spurði einskis.

Kvöldum saman
hef ég sofnað við nið tölvunnar
vaknað við gemsa nágrannans
handan veggjar.

Þögnin horfin úr lífi mínu;
nú set ég reglurnar sjálf
og hef spunnið blekkingarvef fyrir gluggann.

Dapurlegt
segir þú
og vel má svo vera.Margt er líkt með skyldum
og víst er þögnin systir lyginnar.
En vita skaltu
að órofnum svefni
hef ég aldrei kynnst fyrr.