Loksins, loksins! Siðvæðingin lifi!

Mikið lifandi skelfing er ég nú fegin því að dómarar skuli hafa fengið launahækkun. Það er svo gífurlegt álag á dómskerfinu á þessum síðustu og verstu tímum. Og full þörf á siðvæðingu enda glæpirnir iðulega hinir ógeðfelldustu.

T.d. þessi klámdrykkur. Gvuð má vita hversu margar nauðganir hafa átt sér stað í kjölfarið á neyslu þessa ósóma.

Við skulum líka athuga það ef drykkurinn væri til sölu hjá ÁTVR, væri ríkið þar með að stuðla að nauðgunum. Þangað kemur nefnilega margt fólk sem er nýskriðið yfir tvítugt til þess að kaupa sér löglegt fíkniefni sem gæti ýtt undir klámsýkina í því og eins gott að vera þá ekki að glenna þessar eggjandi síderdósir framan í það.

Nei, það gengur ekki að ríkið taki þátt í því að spilla æskunni með klámfengnum drykkjarföngum. Og gott til þess að hugsa að þrátt fyrir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og skerta þjónustu leikskóla, skuli Íslendingar samt bera gæfu til að verja fé til jafn brýnna þjóðþrifaverka og að reka slík mál fyrir dómstólum.

Ónothæft hugtak

Hvað eiga Hlín Einarsdóttir, Anna Ardin og Claes Borgström sameiginlegt?
Nánast ekkert annað en að kalla sig feminista.
Þetta hugtak er ónothæft.

Einhverntíma heyrði ég þá skilgreiningu á feminisma frá yfirlýstum feminista að hann væri ‘það að gera sér grein fyrir því að konur eru manneskjur’ Ég veit ekki alveg hvernig á að nota þessa hugmynd.