Alhæft um karla

Af hverju er alltaf talað um að „karlar“ eigi allar eignirnar, vinni minna en konur, stjórni stórfyrirtækjum og stríðsrekstri, nauðgi og meiði, þegar staðreyndin er sú að langflestir karlar ráða andskotans engu, vinna af sér rassgatið til að tryggja konum sínum og börnum efnahagslegt öryggi, eru skikkaðir til herþjónustu og sjá nauðganir og barsmíðar sem nákvæmlega það ofbeldi sem þær eru?

Hvernig stendur á því að sama fólk og það sem aldrei nefnir valdatogstreitu kynjanna, án þess að kvarta yfir því alhæfingum um feminista, sér ekkert athugvert við að alhæfa um karlmenn?

Æ og klámið enn og aftur, hversu oft skoðuðu drengir klám árið 1978? Er eitthvað sem bendir beinlínis til þess að hlutfall kláms í menningarneyslu unglinga hafi aukist? Og er eitthvað sem bendir til þess að klámneytendur séu meiri ofbeldismenn eða á annan hátt verri manneskjur en púritanar?

Vegna hatrammrar umræðu

Í tilefni af ummælum Höllu Tryggvadóttur um „hatramma umræðu“ í framhaldi af þessum pistli.

Það er náttúrulega algerlega galið að gera þá kröfu til fólks sem vísar í fræðigreinar og rannsóknir (í þessu tilviki greinar sem ekki er hægt að lesa nema borga fyrir aðgang að þeim) að skrifin sem það vísar til, styði það sem það er að segja. Auðvitað á fólk að mega skreyta skrif sín með tilvísunum sem koma málinu ekkert við, í þeim tilgangi að gefa lesendum til kynna að það sé eitthvert vit í því sem það er að segja. Þetta er bara svona skáldaleyfi eða listræn blekking.

Oh þessar túristur

Ég heyri svo oft sögur af konum sem eru afgreiddar með því að spyrja hvort þær séu á túr. Ég hef aldrei svo ég muni orðið fyrir þessu sjálf. Ég væri til í að borga mun hærri upphæð en sem svarar bindum og töppum til að losna við þetta helvíti.

Ég heyri konur tala um að þær verði fyrir dónaskap, aulahúmor og því að ekki sé tekið mark á þeim vegna kynferðis þeirra. Ég verð hinsvegar mjög sjaldan fyrir þessu sjálf (og þá helst þannig að það þyki krúttlegt að lítil kona rífi kjaft, sem fer vissulega í taugarnar á mér) og ég velti því fyrir mér hvort sé eitthvert gap milli upplifunar og raunveruleika.

Ég heyri karla líka tala um að það sé útilokað að vita hvað konur vilji og þeir þori varla að sýna svona séntilmennsku eins og að opna dyr fyrir konu eða borga reikninginn á veitingastað. Ég þekki hinsvegar enga konu sem tæki því illa, svo mér dettur helst í hug að þeir hafi meiri áhyggjur af þessu en efni standa til eða séu jafnvel að nota sjálfstæðisbaráttu kvenna sem afsökun til að vera durtar.

Ég efast um að þeir sem ég umgengst séu öðru fólki siðaðri. Ég virðist verða fyrir minni dónaskap en þær konur sem tjá sig um kynjaátök opinberlega. Hugsanlega er skýringin sú að ég held upp á gamla, góða húsráðið; að verða bara stjörnuvitlaus ef mér ofbýður. Önnur skýring gæti verið sú að margar konur mikli fyrir sér svona skítapillur og telji sig heyra þetta og annað eins oftar en raun er á.

Að þora þegar aðrir þegja

Þegar vinur minn var á unglingsaldri afstýrði hann eitt sinn hópnauðgun.

Atvikið byrjaði sem ósköp sakleyisislegur kitluleikur en vatt einhvernveginn upp á sig. Að lokum var leikurinn farinn að bera verulegan keim af ofbeldi og vinur minn og einn annar tóku í taumana og stöðvuðu leikinn.

Hann segist stundum hafa velt því fyrir sér hvort þeir hefðu jafnvel tekið þátt í þessu ef þeir hefðu verið með frá upphafi og hann er ekki í vafa um að telpunni hefði verið nauðgað ef þeir félagar hefðu ekki mótmælt því aðrir sem voru óvirkir horfðu bara á en sögðu ekki neitt.

Þetta voru bara venjulegir strákar en múgæsingur er lúmskur andskoti og voðaverki var afstýrt af því einhver þorði að tala þegar hinir þögðu.

Bleikt klám

Ég hef verið kölluð klámsinni, af því að ég er mótfallin ritskoðun. Af því að þótt mér kunni að þykja einhver list og dægurmenning vond og lágkúruleg, finnst mér tjáningarfrelsið of dýrmætt til að fórna því á altari smekklegheita og siðsemi.

Það er hinsvegar sitthvað ritskoðun og ritstjórn. Sumu efni hæfa bara ekkert hvaða miðlar sem er og klám er meðal þess efnis sem maður á að geta fulla stjórn á hvort maður verður var við eða ekki. Það er þessvegna sem dagblöð og aðrir almennir fréttamiðlar birta ekki hópreiðarsögur og innanpíkumyndir.

Undarlegt nokk virðist þessi ritstjórnarstefna þó eingöngu gilda um blátt klám. Það er hinsvegar orðið fátítt að ég opni íslenskan netmiðil, án þess að við mér blasi bleikt klám af einhverjum toga. Fréttir af einkalífi fólks sem hefur unnið sér það til frægðar að vera duglegt að djamma. Myndir af þessu sama fólki og tenglar á fróðleiksmola af bleikt.is. Ég held að Smugan sé eini miðillinn sem ég skoða reglulega sem hlífir mér við áreiti af þessu tagi.

Þeir sem hafa áhuga á þessu efni hafa greiðan aðgang að því og ekki vil ég að bleikt klám verði bannað frekar en blátt. Mér þætti hinsvegar við hæfi að fréttamiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega, slepptu því að troða þessum hroða upp á lesendur sína.