Nýtt spakmæli

Í dag samdi ég nýtt spakmæli:

Drag fyrst fjárhirðastafinn úr þínu eigin rassgati og þá geturðu beygt þig til að draga tannstöngulinn úr boru bróður þíns.

Spakmæli þetta tileinka ég Rúdolf. Ég man ekki hvers son hann er en mun framvegis kalla hann Rúdolf kústskaft.

Óorð

-Finndu nafnorð sem byrjar á ó, sagði Lærlingurinn.
Mér vafðist tunga um tönn. Nóg til af ó-orðum en þau sem komu fyrst upp í hugann voru lýsingar- og atviksorð og oft var ó-ið bara forskeyti. Ósama. Ég reiknaði ekki með að hann ætti við sérnafn. Ósómi, ótti, ógn, ósk, órar… Ég var viss um að hann væri að leita að hlutstæðu orði en flest ó-orð virtust tilfinningaþrungin.
Órangútan? sagði ég hálf vandræðaleg. Halda áfram að lesa

Orðaskýringar fyrir kjósendur

images-21Heildstæð stefnumótun = stefna
Heildræn stefnumörkun = stefna
Að marka heildstæða stefnumótun = að móta stefnu

Hjúkrunarúrræði = hjúkrun
Vistunarúrræði = elliheimili, leikskólar og aðrar stofnanir þar sem fólk er geymt.
Heildstæð vistunarúrræði = vistun

Heildstæð stefnumótun í öldrunarmálum = sú skoðun að aldraðir eigi að njóta mannréttinda
Heildstæðar lausnir í öldrunarmálum = bygging hjúkrunarheimila

Af hverju talar enginn um heildstæð lausnaúrræði? Það myndi hljóma svo gáfulega.

Þú líííkaaa, nananananana!

Æ, hvað það hlýtur að vera sæt hefnd fyrir málfarshroðbjóðana hjá Fréttablaðinu að geta potað smávegis í Davíð Þór. Hljómar svona dálítið eins og þegar krakki sem hefur verið margskammaður fyrir að klína kexkremi í sófann, stendur mömmu sína að því að fara með kex inn í stofu.

Sorrý Stína, það er einfaldlega hægt að gera meiri kröfur til ritaðs máls í dagblaði en beinnar sjónvarpsútsendingar, ég tala nú ekki um þegar þátturinn einkennist af hraða og spennu. Kannski hefði Fréttablaðið efni á að ráða prófarkalesara ef blaðið væri selt þeim sem kæra sig um það í stað þess að því sé troðið í póstkassa hjá fólki sem er margbúið að frábiðja sér heimsóknir blaðbera og annarra rusladreifenda.

Ég legg til að Fréttablaðið verði lagt í eyði, ásamt Moggablogginu og Kópavogi. Og Framsóknarflokknum.

Ástríður

Ástríður er gott og gilt kvennafn, sett saman úr ást og -ríður (þessi Ríður er fremur fjöllynd) með áherslu á ást. Ást-ríður. Ástríður stírða aftur á móti á mannssálina og þær þurfa ekkert endilega að tengjast ást. Þessvegna er áherslan á á-ið. Semsagt á-stríður. Mikið vildi ég að auglýsingastofur og fjölmiðlar gerðu þá kröfu til starfsmanna sinna að þeir tileinki sér þokkalegt málfar, m.a. framburðarmun á Ástríði og ástríðum.