Orð dagsins

Uppáhaldsorðið mitt þessa dagana er ‘sneiðafantur’ sem samkvæmt orðabók Menningarsjóðs á við um þann sem setur meira á diskinn sinn en hann getur borðað. Þeir sem sérstakur hefur verið að yfirheyra undanfarna daga eru að líkindum hinir mestu sneiðafantar.

Í fótnum

Júlíus: Er Stulli keyrður?
Jói: Nei, hann fer ekki til vinnu í dag, útaf hann hefur vont í sínu beini.
Frænka: Honum er illt í fætinum.
Jói: Nú? Ég hélt hann hefði bara vont í einum fótnum. Hefur hann vont í tvem?

Af rassgötum og tussum

Ég nota orðið rassgat sem vægt blótsyrði, svona til að gefa til kynna að mér sé eilítið sigið í skap.
-Rassgat, segi ég ef kaffifilterinn rifnar og korgurinn rennur ofan í könnuna.
-Rassgat, hnussa ég þegar ég sé svona fyrirsagnir. Ég get líka átt það til að biðja syni mína um að rassgatast til að ganga betur um, segja að krakkarassgatið hafi skilið frystinn eftir opinn eða að einhver sem mér finnst vera of langt í burtu frá mér, búi úti í rassgati. Halda áfram að lesa

Ísdanska

Frænka: Jói minn, ætlar vinur þinn að borða með okkur?
Jói: Nei, hann verður bráðum náður í af pabba sínum.

Frænka: Viljiði hafa rauðuna lina eða á ég að steikja eggin báðum megin?
Dana: Hanne vill gjarnan hafa það snúið.
Jói: Ég vil ekki ost á mitt brauð og ég átti að spyrja hvis þú getur leggjað enga kartöflu á Atlas disk.

Stuttu síðar þegar við sitjum við matborðið fær Bjartur hóstakast.
Júlíus: Hefur þú vont í hálsinum Bjartur?
Hulla: Bjartur minn, ég er búin að segja þér að fólk á að hvíla sig þegar það er þreytt og fara til læknis þegar það er veikt. Ég er viss um að ef þú að leyfir mér að stjórna þér í hálfan mánuð þá færðu það betur.

 

Í erlendum löndum

Ósköp leiðist mér að heyra fólk tala um (eða sjá skrifað) það sem gerist „í erlendum löndum“. Ýmislegt gerist bæði vont og gott, erlendis, í útlöndum eða í öðrum löndum. Finnist mönnum þetta ekki nógu fjölbreytilegt val má segja utan lands, í fjarskanum eða úti í hinum stóra heimi. Í alvöru, það hlýtur að vera mögulegt að orða þetta á skammlausri íslensku.