Sjálfum sér til verndar

-Til hvers að sofa hjá einhverjum án þess að meina neitt með því þegar er svona miklu skemmtilegra að hafa tilfinningar með í spilinu? spurði hún og þar sem mér er málið skylt hlýt ég að svara.

-Vegna þess ljúfan mín dúfan að þegar upp er staðið fer það ekki eins hryllilega illa með þig. Halda áfram að lesa

Bréf frá ömmu

Jæja skrattakollur

Þá er amma nú búin að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þú fáir enduruppeldi, ekki veitir af. Ég geri mér að vísu ekki vonir um að þú verðir húsum hæfur alveg á næstunni en ef við náum þeim árangri að þú opnir glugga til að lofta út þegar þú ert búinn að kúka svona mikið í buxurnar þínar, þá er stórum áfanga náð.

Þetta verður semsé þannig að næst þegar þú skítur yfir annað fólk, ætlar góða konan að koma og láta þig þrífa bjakkið. Það verður ekkert sérlega skemmtilegt svo þú ættir kannski að æfa þig svolítið í almennri kurteisi. Annars gætirðu þurft að moka út heilum fjóshaug eftir nokkrar vikur og góða konan getur orðið voða ströng. Þú gætir líka unnið þér inn stig með því að senda síðasta fórnarlambi skriflega fyrirgefningarbeiðni.

Við skulum svo bara vona að þér gangi vel að læra þína lexíu því annars verður amma að sækja vöndinn. Og því get ég lofað að þá verður skrattanum ekki skemmt.

Komin niður

Held ég sé að koma niður af þessu vellíðunarflippi sem ég hef verið á undanfarið. Ekki svo að skilja að mér líði neitt illa. Meira svona hlutlaust. Eða frekar svona eins og ponkulítið eirðarleysi sé að byrja að springa út innra með mér. Mér leiðist eitthvað svo og skýringin er ekki sú að mig vanti félagsskap eða hafi ekkert að gera. Mig langar bara að hitta einhverja aðra en þá sem eru í boði og gera eitthvað annað en það sem liggur beinast við. Veit samt ekki hvað. Svo langar mig í phenylethilamin, heilt kíló en vil samt ekki þurfa að gúlla í mig 10 kg af súkkulaði. Halda áfram að lesa

Skýrsla

Mig langar í hreindýr. Eyddi öllum morgninum í að þrífa en nú er ég líka búin að skila sameigninni og er laus við hana næstu 6 vikurnar. Þegar ég varð þrítug sagði ég að ég hefði sett mér það markmið að vinna engin heimilisstörf eftir fertugt, nema þá að elda þegar og ef mig sjálfa langaði til þess. Setti upp plan; ætlaði að eignast heimilistæki, eitt á ári, fyrst þurrkara og svo eitt af öðru og enda á heindýri.

Síðan hefur mest lítið gerst í þeim efnum. Hef ekki ekki einu sinni fjárfest í hrærivél. Ég er að hugsa um að breyta planinu, hlaupa yfir græjurnar og fara beint í hreindýrið. Vera búin að fá mér hreindýr áður en ég þarf að sjá um sameignina næst.

Sá lokaæfinguna á Patataz í dag. Átti reyndar von á góðu þar sem Björn stórvinur minn og skrifnautur er annarsvegar en svo virðist sem allir aðrir sem koma að sýningunni séu líka hæfileikafólk svo útkoman er tvímælalaust þess virði að sjá hana tvisvar. Tók Kára minn með og við erum svo búin að hanga yfir kaffibolla síðan.

Bréf til Dramusar

Sæll Dramus

Ég á reyndar ekkert óuppgert við neinn en taldi nokkuð víst að Dramus væri „sumir“. Tek þessu sem yfirlýsingu um að svo sé ekki. Þar sem þú hefur ekki kynnt þig ætla ég ekki að biðjast forláts á þeim misskilningi en skal hugleiða möguleikann á því að yrkja eitthvað fallegra til þín þegar og ef þú stingur nefinu út úr skápnum.

Ólíkt töluðum orðum er hægt að breyta því sem maður skrifar inn á bloggið en ég ætla nú samt ekki að eyða síðustu færslu eða breyta henni. Ef ég gerði það stæðu skrif mín ekki undir nafninu sýndarveruleikaraunsæi.

Óður til Dramusar

Þetta eru í hjörðum þínar kýr og ær
að þekja með lambaspörðum eða dellu
hverja þá slóð sem hörð er fæti nær.

Saur hef ég vaðið áfram síðan þá
og samt hef ég út á hlaðið skóna borið
og hirði ekki um aðra, hvað þeir segja og sjá.

Og veðrið er blítt og þú ert engin þruma
og þessvegna hugsa sumir lítt um suma.