Læk

Sú ákvörðun að birta pistla á Eyjunni hefur vafist fyrir mér. Að sumu leyti af því að mér þykir vænt um lénin mín. Að sumu leyti af því að ég er ekki hrifin af útliti Eyjunnar og finnst dálítið kvíðvænlegt að geta ekki stjórnað útlitinu á mínu svæði sjálf. Auk þess er ég ofboðslegur tækniklaufi en það stoppar mig ekkert í því að prófa eitthvað sem ég kann ekki á, svo ég sá fyrir mér endalaust vesen ef ég gæti ekki kvabbað í mínum eigin sérlegu aðstoðarmönnum til að laga til eftir mig þegar ég er búin að klúðra einhverju.

Ég lenti strax í smávegis tækilegum vandræðum þegar ég fór fyrst inn á vefsvæðið. Varð auk þess frekar pirruð þegar ég sá að lokað er fyrir möguleikann á að setja inn viðbætur. Ég hafði samband við umsjónarmann vefsins, Birgi Erlendsson og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig. Það var síðla kvölds og ég átti alls ekki von á svari fyrr en í fyrsta lagi næsta dag en viðbrögðin komu ánægjulega á óvart. Viðbótin var sett inn strax, öllum spurningum svarað vel og skilmerkilega og öll vandamál leyst í hvelli.

Ég er hæstánægð með þessa þjónustu; eða eins og netverjar segja “læk!”

Beiðni til Brandarakastljóss

Í Kastljósinu, virtasta fréttaskýringaþætti íslenskra fjölmiðla, er pláss fyrir framhaldsskólahúmor. Það væri nú alveg ágætt ef fréttaþurrð væri ástæðan fyrir því að brandarastrákar fá að vera með. En er virkilega svo mikil gúrkutíð þessa dagana að fréttamönnum Kastljóssins detti bara ekkert merkilegra í hug? Ef svo er, þá er ég með ábendingu: Huang Nubo. Eða var það Nubo Huang? Halda áfram að lesa

Lára Hanna og vefvarpið

Lára Hanna Einarsdóttir er einn af bestu fréttamönnum Íslands. Ég hef reyndar ekki séð nein skrif frá henni um klæðleysi fræga fólksins eða annað það sem nær efstu sætum vinsældalistanna í andverðleikasamfélagi íslenskra fjölmiða en ólíkt meirihluta fréttamanna vinnur hún almennilega heimildavinnu. Hún kafar oftast miklu dýpra í málin en flest fjölmiðlafólk og er ötul við að grafa upp gamla atburði og setja þá í samhengi við ný mál. Fáir hafa verið jafn iðnir við að nota þá aðferð til að varpa ljósi á heildarmyndina. Halda áfram að lesa

Afsökunarbeiðni til DV

Í pistli sem ég skrifaði í morgun kemur fram bagaleg villa en ég sagði að svo virtist sem Smugan hefði ætlað að taka vitleysuna upp eftir DV.

Fyrirsögnin sem kemur fram í vefslóð Smugunnar, og olli greinilegum misskilningi svosem sjá má af ummælum í umræðukerfinu sem og af því að þekktir bloggarar töldu víst að maðurinn væri í samfélagsþjónustu, er semsagt kveikjan að frétt DV en ekki öfugt.

Ég hefði þurft að fara betur yfir áður en ég birti þetta og kann ég Ingimar Karli Helgasyni bestu þakkir fyrir að vekja athygli á því að það er Smugan en ekki DV sem ber mesta ábyrgð á þessari röngu frétt.

Að taka afstöðu

Uppskrift að áburði:

Finnum gamlan, botnfallinn skít. Hrærum rækilega upp í honum og dreifum soranum sem víðast svo öruggt sé að drullan lendi í sem flestum hálfgrónum sárum.

Jafnvel þótt útilokað sé að eyða leðjunni og eina leiðin til að hreinsa vatnið sé sú að leyfa henni að setjast, höldum þá áfram að hræra upp í skítnum. Berum svo mykjuna á túnið. Halda áfram að lesa