Særð eftir sýru

 

Fréttablaðið birtir í dag frétt með fyrirsögninni Rannveig Rist særð í andliti eftir sýruárás. Þetta er sláandi fyrirsögn og rökréttast að álykta að ribbaldar hafi ráðist að henni í nótt eða gærkvöld með einhverskonar efnavopnum í þeim tilgangi að skaða hana.

Svo kemur í ljós að um er að ræða 2ja mánaða gamla frétt, sem af einhverjum dularfullum ástæðum hefur ekki verið birt áður. Ekki var ráðist á Rannveigu, heldur bílinn hennar en hún varð fyrir þessu óhappi þegar hún opnaði bílinn sinn og efnið skvettist úr hurðarfalsi. Reyndar má draga í efa dómgeind manneskju sem snertir bíl sem hefur verið meðhöndlaður með efni sem er svo sterkt að það bræddi rúðurnar í bílnum hennar. Mig langar að sjá mynd af þeim rúðum því hafi sú frétt að önnur eins efnavopn séu komin í noktun hjá aðgerðasinnum verið birt fyrr, hefur hún farið fram hjá mér.

Sé það rétt að Rannveig hafi orðið fyrir meiðslum, lýsi ég samúð minni með henni. Ég held að langflestir umhverfissinnar vilji komast hjá því að valda manneskjum skaða hversu sekar sem þær eru. Mér er hinsvegar skítsama um bílinn hennar og mér er jafn drullusama um bíl Hjörleifs Kvaran. Því eins og umhverfissinnar hafa margbent á er jörðin ekkert ‘að deyja’ heldur er verið að drepa hana. Og þeir sem bera ábyrgð á því hafa nöfn og heimilisföng.

Hvað er eiginlega að Elling?

Af hverju taka menn allaf það sem er fullkomið eins og það er og gera það aftur? Er ekki eitthvað stórkostlega athugavert við hugmyndaflug þeirra sem geta ekki bara gert eitthvað nýtt? Ef út í það er farið er svosem ekkert nýtt undir sólinni, við byggjum alltaf á því sem við þekkjum en fjandinn hafi það, hvað er eiginlega að upprunalegu útgáfunni?

mbl.is Sigurjón gerir mynd með Steve Carell

Arnaldur er ofmetinn

Ég held að Arnaldur Indriðason hljóti að vera ofmetnasti rithöfundur Íslandssögunnar. Mér finnst, þrátt fyrir andúð mína á þeim bókum hans sem ég hef þegar lesið, ótrúlegt að verulegar vondar bækur vinni til verðlauna í fjölþjóðlegri samkeppni svo ég ákvað að gefa Grafarþögn séns. Fyrsti kaflinn slapp nokkurn veginn en síðan hefur höfundur hvað eftir annað komið upp um hæfileikaleysi sitt sem rithöfundar. Nú er ég komin á bls 41 og það er fyrst hér sem bullið gengur fram af mér.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur, sem þrátt fyrir áratuga starf við að upplýsa morð og myrkraverk hefur ekki varphænuskilning á því málfari, siðareglum og hugsunarhætti sem einkennir undirheima Reykjavíkur, eltir fremur ógæfulegan mannvesaling út af Kaffi Austustræti og nær að hrinda honum í götuna. Og hér kemur svo gullkorn úr þessari stórmerkilegu Glerlyklissögu:

Tvö pilluglös hrundu úr vösum hans og Erlendur tók þau upp. Sýndist það vera e-töflur.

Af hverju gefa svona fáir góðir höfundar út glæpasögur? Kannski af því að góðir höfundar gera þá kröfu til sjálfra sín að þeir viti EITTHVAÐ um umfjöllunarefnið? Arnaldur virðist allavega vera alveg laus við að hafa vit á því sem hann skrifar um.

Kannski ætti mbl.is að endurskoða stefnu sína?

Ég varð mjög ánægð þegar mbl.is skrúfaði fyrir þann möguleika að beintengja blogg við fréttir af slysum, kynferðsglæpum og öðru mjög viðkvæmu og persónulegu. En getur einhver sagt mér hversvegna er ekki hægt að tengja færslu við þessa frétt? Flokkast það sem viðkvæmt og persónulegt mál ef einhver bullan gengur um og ógnar fólki?

Annað sem mér finnst gagnrýnivert hjá mbl.is. Nú er ekki lengur hægt að blogga nafnlaust. Mér finnst það slæmt af því að í málefnalegri umræðu á persónan á bak við orðin ekki að hafa of mikil áhrif á það hvernig umræðan þróast en ég skil það, vegna þess að of margir nýta sér nafnleysið til að sverta aðra og jafnvel ógna saklaustu fólki.  Það skýtur því skökku við að eftir sem áður sé hægt að beintengja hvaða bull sem er við fréttir, með því að senda sníkjubloggfærslur inn á atugasemdakerfi annarra, nafnlaust. Veit einhver hvaða rök eru á bak við það fyrirkomulag?

Óskaplega leiðist mér svona fréttamennska

mbl.is Óttast að uppúr sjóði

Þessi fréttamaður tók við mig langt viðtal og þar kom skýrt fram að ég stjórna ekki einu eða neinu, enda vinna þessir aðgerðahópar sem ég hef unnið með ekki eftir einhverju pýramídakerfi. Ég stjórna hvorki hópum né einstaklingum. Hvortveggja þá eru aðgerðasinnar almennt fólk sem lætur ekkert segja sér fyrir verkum og flest okkar gera einnig þá kröfu til annarra að þeir hugsi sjálfstætt og taki frumkvæði. Ég hef engan áhuga á að stjórna fullorðnu fólki, ég hef hinsvegar áhuga á að taka þátt í þeim með jafningjum.Ég hef tjáð mig í fjölmiðlum. Ég hef svarað gagnrýni sem byggir á fordómum og vanþekkingu. Mér lætur vel að tala og skrifa en er hinsvegar ekki góð í því að klifra upp húsveggi eða standa í vegi fyrir fílelfdum lögregluþjónum. Það að ég tali mikið, merkir ekki að ég stjórni neinu og ég gerði þessum fréttamannsskratta það alveg ljóst.