Bera foreldrar enga ábyrð?

Foreldrar senda börn sín í skólann, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, þótt þeir viti að þau séu lögð í einelti. Foreldrar horfa upp á maka sinn beita börnin ofbeldi, hvað eftir annað, jafnvel árum saman og gera ekkert í því. Foreldrar horfa upp sín eigin afkvæmi nídd og kvalin af öðru fullorðnu fólki og láta það viðgangast, jafnvel í aðstæðum þar sem barnið á sér engrar undankomu von, sbr. fréttina sem ég tengdi á.

Faðir drengs­ins var skip­verji á skip­inu og varð hann vitni að sumu því sem gert var við son hans. Haft er eft­ir hon­um í dómn­um, að hon­um hefði fund­ist hann hafa brugðist drengn­um með því að grípa ekki fyrr inn í en raun bar vitni. Hefði hann verið á sjó í 25 ár og aldrei upp­lifað hegðun eins og hafi tíðkast um borð í þessu skipi.

Og svo verður fólk hissa þegar maður segir að samfélagið einkennist af barnfyrirlitningu.

Kvenhetjur í barnaefni – hafa fjölmiðlar áhrif?

disney

Fjölmiðar móta okkur. Hljóta að gera það. Fyrirtæki myndu ekki verja skrilljón trilljónum í auglýsingar ef þær skiluðu ekki hagnaði. Við sjáum líka áhrif kvikmynda og annarra miðla á það hvaða vörur ná vinsældum. Disney þetta Disney hitt, bleikt með glimmer fyrir stelpur og eitthvað öllu töffaðra fyrir stráka. Halda áfram að lesa

Hættið að bjóða okkur upp á svona þvælu

Mikið ofboðslega er þetta bull farið að fara í taugarnar á mér.

Það er ólöglegt að gefa börnum fíkniefni.
Það er ólöglegt að hafa kynferðislegt samneyti við börn, líka þegar peningar, fatnaður og dóp koma við sögu og reyndar telst það ennþá alvarlegra.
Fimmtán ára barn er ekki ábyrgt fyrir því að kæra mann fyrir að gefa sér fíkniefni. Börn eru heldur ekki ábyrg fyrir því að kæra menn fyrir mannrán, frelsisviptingu, nauðganir, siðferðislega þvingun og annað ofbeldi.

Hvernig væri að lögruglan sneri sér að því að eltast við alvöru bófa í stað þess að eyða púðrinu í að handtaka fólk fyrir að gagnrýna stríðsrekstur Bandaríkjamanna (sem Íslendingar styðja með aðild sinni að NATO)? Hvernig væri að þessir vesælingar bögguðu barnaræningja í stað þess að handtaka fólk fyrir það eitt að fara í taugarnar á yfirvaldinu og finna sér tylliástæðu til að ákæra það, þegar raunverulega ástæðan er andóf gegn valdníðslu? Já og hvernig væri að talsmenn þolenda, hætti að ljúga því að það sé svona útilokað að koma lögum yfir menn sem fela týnd börn, dópa þau upp og gera þau út til vændis?

Það er nefnilega haugalygi að vandamálið sé það að stelpurnar þori ekki að kæra. Annað hvort eru þessar sögur eitthvað orðum auknar eða þá að lögreglan er handónýt stofnun þar sem fullkomlega óhæfir yfirmenn vaða uppi.