Bara

Frjádagur og frú eru að undirbúa krossferð gegn stóriðju og fara héðan á föstudaginn. Lærlingurinn kom heim frá Ítalíu í gær og ég er dauðfegin að þurfa ekki að vera hér ein allan daginn á meðan þau bjarga heiminum. Eins og ég er annars lítt mannelsk, þá hættir mér til að deyja úr leiðindum ef ég hef ekki félagsskap.

Komið til skila

Jæja Mogginn er búinn að leiðrétta mestu rangfærslurnar.

Ég varð frekar fúl þegar þeir sögðu frá þessu nánast eins og Haukur væri bara ranglandi um Palesínu á eigin vegum að snapa fæting en get kannski frekar lítið sagt þar sem ég neitaði að gefa upplýsingar (enda var ég búin að lofa Hauki að gera það ekki nema fá leyfi hjá honum fyrst.) Þetta er þá allavega komið á hreint og Haukur er kátur. Ekkert á heimleið held ég þótt flestum í fjölskyldunni hefði þótt best ef hann yrði bara rekinn úr þessu hræðilega landi.

 

Móðursýkin

Sonur minn Byltingin og Rósin sluppu lifandi úr eldsvoða nú um daginn. Gistu í trjáhýsi í 10-12 metra hæð og Haukur vaknaði við sviða í kokinu. Allt fullt af reyk og mér skilst að það sé ekkert grín að brölta hóstandi í gegnum brennandi tuskur og greinar og þurfa svo að klifra niður úr háu tré í niðamyrkri. Þau sluppu samt ósködduð og skógurinn líka. Af öllum frábæru ævintýrunum sem hann er búinn að segja mér frá er þetta það eina sem ég sé virkilega fyrir mér.

Rósin farin til Indlands og Byltingin einn á þvælingi um Evrópu. Mér fannst skárra að vita af honum með henni. Vil bara fá hann heim aftur sem fyrst og vita hann sofa innan dyra í alvöru húsi, þar sem er til sjúkrakassi og borða óhollan mat sem er búið að elda og setja á disk en ekki eitthvað gras sem hann finnur á víðavangi. Og svo vil ég líka fá að geyma vegabréfið hans sjálf.