Sukk

Ég er ekki feit og aldrei verið svo feit að ég myndi líta á það sem vandamál hjá einhverjum öðrum en sjálfri mér, en þrátt fyrir það er fátt sem ég óttast meira í lífinu en að fitna. Flestum sem þekkja mig finnst það ótrúlegt því ég lít hvorki út né hegða mér eins og anorexíusjúklingur. Ég hef aldrei neitað mér um neitt en fólk sem „passar línurnar“ virðist alltaf vera að láta eitthvað á móti sér.

Ég virðist líka brenna óvenju miklu. Fólk hefur horft á mig í forundran og spurt hvernig svona lítil kona geti étið eins og þrjú hross án þess að fitna. Sannleikurinn er sá að ég get það ekki. Ég hélt það sjálf, í mörg ár, af því að það leit svo oft út fyrir það. Ef við Anna fórum á Grillhúsið fór ég létt með að troða heilli steikarsamloku í andlitið á mér, með frönskum, sósu og öllu, á meðan Anna tutlaði í sig minna en helminginn af sínum skammti og stóð á blístri. Svo kláraði ég matinn hennar líka – svo hún færi ekki til Helvítis fyrir að henda mat.

Þetta er samt ekkert svona einfalt. Ég get semsagt ekki étið endalaust án þess að fitna því þegar ég fór að fylgjast almennilega með því sem ég lét ofan í mig, kom í ljós að stundum gleymdi ég að borða heilu dagana. Ég eldaði fyrir aðra og hélt að ég hefði borðað en við nánari umhugsun hafði ég kannski bara rétt smakkað matinn. Stundum finn ég bara ekkert til svengdar lengi, enda eru það rökrétt viðbrögð líkamans ef maður hefur borðað meira en maður þarf og nú þegar ég hef skrifað niður það sem ég læt ofan í mig í nokkrar vikur, kemur í ljós að ég brenni ekkert nema svona 1300 feitabollueiningum að jafnaði. Sem er bara alveg í samræmi við aldur, kyn og líferni.

1300 feitabollueiningar. Hvað eru margar feitur í einni margenstertusneið? Miðað við það hvað góður matur er oft fáránlega orkuríkur, má undrum sæta að offita sé ekki ennþá útbreiddara vandamál en hún er (jú það er víst vandamál ef fólk býr við heilsubrest af völdum ofeldis og eyðileggur á sér hnén fyrir aldur fram.) Og ég sem vil hafa allt með sykri og rjóma. Þetta hljómar ekki vel. Full ástæða til að fara á límingunum því nú bý ég með manni sem byrjar daginn á því að laga handa mér latte. Hann malar baunirnar í hvern bolla og þeytir mjólkina. 75 feitabollueiningar takk fyrir en hvurslags kalvínismi væri það að afþakka svoleiðis trakteringar? Ekki geri ég  það svo mikið er víst. Honum finnst líka allt í lagi að borða vínarbrauð með morgunkaffinu um helgar og þótt ég fái mér bara hálft er ég þar með búin að hesthúsa hátt í 300 eitur áður en ég fer á fætur.

Við kaupum feita osta, hellum ótæpilegu magni af ólívuolíu yfir salatið og ekki finnst okkur pasta með pestó slæmur matur. Fíllinn á heimilinu, sem á það til að gera góðlátlegt grín að því að því hvað mér tekst illa að leyna þeirri afstöðu minni að kolvetni sé eitur, er reyndar svo mikill meinlætamaður að hann smyr ekki brauðið sitt en ég nota hins vegar miiiiikið smjör, það gera 70 feitur í viðbót og ég er líka hrifnari af rjóma en þessi matgranni maður minn.

Kona sem brennir ekki nema 1300 feitabollueiningum á dag þarf ekki að víkja neitt rosalega langt frá kalvínismanum til að sprengja skalann og á heimili þar sem súkkulaði og rauðvín er jafn sjálfsagður hluti af daglegu fæði og gulrætur, er full ástæða til að hafa áhyggjur. Og eitt af því sem er bæði gott og slæmt við að búa með öðrum er að maður gleymir ekkert að borða. Maður heldur matartíma hátíðlega, allavega ef maður býr með einhverjum sem lýsir manni sem snilldarkokki í hvert sinn sem maður eldar eitthvað jafn ómerkilegt og kartöflu og fellur fram og tilbiður mann ef maður eldar alvöru mat.