Sukkjöfnunaraðferðin

Mér hefur sennilega aldrei á ævinni liðið betur í hjartanu en í augnablikinu hef ég áhyggjur af því að ég verði svo áhyggjufull yfir orkuinntöku minni, að það endi með því að ég fari að elda eins og ég sé í vist hjá Grýlu og jólasveinunum. Það er gott að hafa lúxusáhyggjur.

Ég hef sett sjálfri mér tvö manneldismarkmið:
A) Ég ætla aldrei að neita mér um mjólkurkaffi, smjör, feitar sósur, osta, kartöfluflögur, pasta, egg, sætabrauð, súkkulaði, rauðvín o.s.frv.
B) Ég ætla aldrei að þyngjast um meira en 3.5 kg frá því sem ég er í dag.

Nú fara þessi markmið ekkert sérstaklega vel saman, hvað þá ef maður borðar eins og fugl en brennir eins og fíll (hlutfallslega). Og ekki einfaldar það málin að búa með manni sem þrátt fyrir að borða eins og fíll, hefur ánægju af orkuríkum mat og lítur á alla næringarfræði sem gervivísindi. Ég kann bara tvær leiðir til að samræma þessi tvö markmið. Önnur er sú að æla því sem maður gúllar í sig. Sú leið flokkast víst sem geðsjúkdómur en er auk þess bæði ógeðsleg og ekkert áhættuminni en að éta sér til óbóta, svo hún kemur eiginlega ekki til greina. Hin leiðin er að hafa sukkjöfnunarmáltíðir af og til. Semsagt, njóta þess bara að borða pastað og ávaxtakarrýið og kexið og allt hitt eitrið, og hafa svo inn á milli meinlætamáltíð í dulargervi.

Ég hef eldað sukkjöfnunarmáltíð minnst einu sinni í viku undanfarið. Þær eru ekki eins mettandi og kjöt og pasta en maður fær allavega ánægjuna af hinu heilaga kvöldverðarritúali. Þegar maður myndi hvort sem er gleyma að borða ef maður byggi einn, þá hefur maður ekkert með margar hitaeiningar að gera hvort sem er svo það er allt í lagi þótt maður standi ekki á blístri. Þetta er allavega aðferð sem hentar þeim sem vilja hvorki fitna né sleppa sunnudagsbakkelsinu og ef einhverjir á heimilinu borða eins og fuglar, er ekkert mál að bæta við orkuna með því að bjóða upp á brauð, hrísgrjón eða aðra sterkju líka. Sá sem er í sukkjöfnun sleppir því þá bara og allir á heimilinu lifa hæfilega umfangsmiklir og hamingjusamir til æviloka.

Prófið t.d. að sjóða súpu úr kúrbít eða öðru grænmeti af graskersætt. Flestar squash tegundir eru mjög orkusnauðar og kúrbítur heitir kúrbítur af því að maður á að bíta í hann þegar maður er á kúr.  Það er einfaldasta mál í heimi að elda góða sukkjöfnunarsúpu og það er alger vitleysa að það þurfi að baka grænmetið með olíu.

3523marrow-300x199Maður sker bara kúrbít, marrow eða annað squash bara í bita, ásamt öllu grænmeti á heimilinu sem liggur undir skemmdum, ekki þó nota mikið af kartöflum því þeim eru mörg kolvetniseitur. Sjóða allt draslið lengi dags, krydda vel með reyktri papriku og því kryddi sem maður kann best að meta, mauka súpuna í blandara og smakka til.

Þegar súpan er maukuð svona verður áferðin þykk eins og á gulu baunasúpunni sem maður borðar með saltkjöti og maður verður alveg saddur af henni, þótt það sé nú kannski að mestu leyti sálræn upplifun.  Í fjögurra dl súpuskál eru ekki nema 100-150 he svo þótt maður grilli beikon í ofninum og búti 1-2 ræmur ofan á hvern disk má maður hafa verulega mikla matarlyst til að borða dagsþörf sína. Það má líka setja smá sýrðan rjóma og ferskan kóríander ofan á hvern disk, eða ost, krydda með einhverju öðru bragðmiklu kryddi og eflaust er hægt að finna mörg fleiri tilbrigði. Það má frysta kúrbítssúpu svo maður þarf ekki að hafa áhyggjur af að fara til Helvítis þótt manni verði það á að elda of mikið af henni, svo hún hentar líka þeim eru haldnir matreiðsluröskun.

Í kvöld ætla ég að slá tvær flugur í einu höggi og elda sukkjöfnunarmat úr afgöngum. Í ískápnum eru tvær kaldar kartöflur, soðnar smjörbaunir, einn niðursoðinn tómatur og nokkrar niðursoðnar apríkósur sem þarf að bjarga úr kjafti ruslaskrímslisins. Auk þess er til hvítkál, gulrætur og paprika. Ég veit ekki ennþá hvað ég ætla að gera við þetta, (venjulega veit ég það ekki þegar ég byrja að elda og svo vindur matseldin einhvernveginn upp á sig og verður að hlaðborði) en ef það verður ætt, segi ég frá því síðar.