Matreiðslufíkn 2

Ég viðurkenni að ég á það til að fara offari í eldhúsinu. Það er nefnilega þannig að sumir bregðast við kvíða með ofáti, fara á eyðsluflipp ef þeir reiðast eða drekka frá sér áhyggjur. Ég geri það nú ekki, en ef ég er ekki í fullkomnu jafnvægi, elda ég allt sem tönn á festir. Það hefur komið fyrir mig að vera allt í einu búin að setja upp hlaðborð þótt ég eigi ekki von á neinum í mat, jájá, þetta er náttúrulega bilun, ég er ekkert að neita því.

Ég hef verið lánsöm í gegnum tíðina því ég hef ýmist rekið stórt heimili, haft matlystuga heimaganga eða haft aðgang að eldhúsum annars fólks sem finnst skemmtilegra að borða en elda. Það er líka eins gott, því eins og allir vita fara þeir sem henda mat til Helvítis, og þótt ég vilji frekar fara til Helvítis en að fitna, verkjar mig í hjartað við tilhugsunina um að henda ætum mat í ruslið. Hvatinn til að nota mallakútinn sem ruslafötu er þannig vissulega fyrir hendi þrátt fyrir rótgróinn offituótta minn. Hinn kosturinn er sá að setja matinn inn í ísskáp og láta slá dálítið í hann áður en maður hendir honum en það  væri ekki bara glæpur gegn Mammoni, Móður Jörð og svöngu börnunum í Afríku, heldur líka móðgun við fínu ísskápsílátin mín. Það er því mikil blessun fyrir fólk með matreiðslufíkn að hafa aðgang að matgoggum.

Líf mitt hefur breyst töluvert síðasta árið, til hins betra, að öðru leyti en því að ég hef minna samband við elskulega systur mína og hennar fólk. Sértæk matreiðsluröskun mín er álagstengd en þessa mánuðina er ég svo róleg að það rennur varla í mér blóðið, ég hef ekki einu sinni fundið fyrir bloggspreng nema á margra vikna fresti og er það nýnæmi.

Þessi rólegheit eru afar gæfusamleg því við erum bara tvö í heimili og Eynar borðar eins og smáfugl. Reyndar benti Anna mér á að ég ætti frekar að horfa á hlutfallið en magnið. „Fuglar éta víst hálfa þyngd sína daglega svo þú átt væntanlega við að hann borði eins og fíll“ sagði Anna og já, sennilega á prósentureikningur betur við, allavega þegar stærðfræðingur á í hlut.

Semsagt, maðurinn minn borðar eins og fíll og mun því ekki gúlla í sig heilli fermingarveislu bara af því að konan hans er í matreiðslukasti. Við umgöngumst heldur ekki svo marga að hægt sé að hringja út björgunarsveit til að troða sig út af vikuskammti af mat ef mér yrði það á að elda allt sem til er í húsinu svo ef ég skyldi nú stressast upp er bara um tvennt að velja, að fitna eða fara til Helvítis. Segið svo að lúxusvandamál séu ekki háalvarleg.