Matreiðslufíkn

Þegar Darri var lítill hélt hann því staðfastlega fram að hann fengi aldrei neitt að borða nema afganga. Þótt ég kannist reyndar ekki við að hafa átt stórfelld viðskipti við afgangabúðir er sannleikskorn í þessari fullyrðingu. Ég elda oft ríflega og nota svo „afganginn“ í annan rétt daginn eftir. Ekki til að spara vinnu, heldur af því að ég finn oft fyrir fyrir knýjandi þörf til að elda meira en við borðum. Það er náttúrulega bilun en geðveiki er hluti af lífinu svo mitt fólk verður bara að lifa við stöðuga afgangamatseld.

afgangarFlassbakk frá 2010. Sviðið er eldhúsið í Hullusveit.

Frænka er að sýsla við að fylla öll nestisbox á heimilinu af mat, (enda sýslumaður í eðli sínu) þegar Hulla kemur inn, dásamar matarilminn og opnar búrdyrnar.

Hulla: Gafst þú naggrísunum?
Frænka: Nei.
Hulla: Ég er viss um að það var brokkoli hérna sem ég ætlaði að gefa þeim.
Frænka (grípur andann á lofti): Ætlaðir þú að gefa naggrísunum þetta fína brokkoli? Ég er sko búin að elda það handa þínum eigin grísum, þannig að rotturnar verða bara að fá arfa.
Hulla: Ok, en ég hélt að við ætluðum að hafa fisk.
Frænka: Já auðvitað, ég eldaði hann líka.
Hulla: En osturinn, er hann búinn?
Frænka: Já, ég notaði hann til að gratinera afganginn af grænmetinu sem ég eldaði í gær.
Hulla: Þetta verður allt of mikill matur.
Frænka: Það er allt í lagi. Ég elda bara eitthvað úr afgangnum á morgun.

Sími Hullu hringir og hún svarar.
Hulla: Hæ Eiki. Já heyrðu, Frænka er í kasti og búin að elda allt sem var til í búrinu þannig að það væri fínt ef þú færir í búðina á heimleiðinni. (Snýr sér að systur sinni) Vantar ekki eitthvað meira en ost og grænmeti?
Frænka: Jú mjólkin er líka búin.
Hulla: Ha? Voru ekki til 3 lítrar í morgun?
Frænka: Jú en ég sauð grjónagraut handa strákunum í hádeginu.
Hulla: Heyrðu Eiki er að spyrja hvort þú sért líka búin að sjóða kornflexið.
Frænka: Nei, ég sauð það ekki. En ég notaði það í bakstur.