Stóri bróðir allsstaðar

Einu sinni var breskur njósnari sem hét Mark Kennedy. Eitt verkefna hans var að villa á sér heimildir, bregða sér í líki umhverfisverndarhippa og fylgjast með aðgerðum friðsamrar hreyfingar sem beitti beinum aðgerðum í andófi sínu gegn yfirtöku  stóriðjufyrirtækja á náttúru Íslands. Til þess að ná sem mestum upplýsingum, gekk hann svo langt að mynda kynferðisleg sambönd við ungar stúlkur sem unnu með hreyfingunni. Stúlkur sem hefðu ekki snert Mark Kennedy með sótthreinsuðum töngum ef þær hefðu vitað sannleikann um hann. Enn hafa ekki fengist nein svör um þátt íslensku lögreglunnar í ólöglegri njósastarfsemi Marks Kennedy.

Innanríkisráðherra virðist staðráðinn í að uppfylla einn blautasta draum Björns Bjarnasonar, drauminn um eftirlitssamfélag. Hann hefur þannig mótað frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir handa lögreglu, sem á mannamáli merkir að lögreglan fær formlegt leyfi til að gera það sem hún gerir nú þegar, að hlera síma, lesa tölvupóst og koma staðsetningarbúnaði á almenna borgara sem ekki eru grunaðir um glæpsamlegt athæfi. Tekið er fram að ekki megi nota frumvarpið gegn grasrótarhreyfingum en það er í besta falli barnalegt að ímynda sér að lögreglan á Íslandi, sem enn hefur ekki fengist til að svara til um þátt sinn í Kennedymálinu, muni ekki misnota slíkar heimildir.

Rökin fyrir þessari ósvinnu er uppgangur skipulagðra glæpagengja. Og jújú, mótorhjólabullur hafa látið til sín taka en að nota það sem réttlætingu er fremur hlálegt í ljósi þess að í þessum orðum skrifuðum sitja helstu forsprakkar Vítisengla bak við lás og slá og voru gómaðir með hefðbundnum aðgerðum lögreglu.