Eldvagninn

Þar sem þú situr við krossgöturnar
og hugleiðir hvorn veginn skuli halda
tekurðu eftir Baldursbrám
sem spretta í vegkantinum.
Auga hins hvíta áss sem féll fyrir galgopahætti goðanna;
þeir skelltu skuldinni á Loka því einhverjum varð að refsa.

Þú slítur eitt blóm
og stingur í gatið á enni þér
aðallega til að hylja það augum Vegfarandans
sem er farinn að spyrja óþægilega persónulegra spurninga.
Stuttu síðar sérðu vagninn koma á fleygiferð að krossgötunum
rammbyggðan stálvagn, með logandi hjól
dreginn af makkaprúðu ljóni.
Vegfarandinn veifar þumalfingri
og ekill í heilbrynju býður ykkur sæti við hlið fíflsins.
Brynvarinn elddrekinn kemst yfir hvaða hindrun sem er
en blikið í auga drengsins er horfið.

Hvert skal halda? spyrð þú
en pilturinn hristir hnýfilhyrnt höfuðið
svo kristallar klingja.
Bara eitthvert og það fljótt, segir hann.

Hann hefur týnt hnoða Öldungsins
og héðan liggja allar leiðir.