Grill

„Og hvað er helst í fréttum á Íslandi, svona fyrir utan forsetaframboðið?“ spurði gesturinn kurteislega og handlék grillspjótið.

Ég hugsaði mig aðeins um. Sagði honum svo að Ríkissjónvarpið hefði talið það helst fréttnæmt að fáráður nokkur hefði látið flytja 25 tonna grjót á milli landshluta.
„Nú? Og af hverju er það talið fréttnæmt á Íslandi?“ spurði gesturinn.
„Af því að fáráðurinn er þingmaður“, sagði ég. Útskýrði svo fyrir honum margvíslegar ástæður þess að flokka þingmanninn til fáráða, en auk þess væri um að ræða fyrrum refsifanga sem hefði misfarið með almannafé á meðan hann sat á þingi.

„Þannig að þessi fyrrverandi þingmaður er kominn í grjótflutninga núna?“ Spurði gesturinn. Ég sagði honum að umræddur bjáni væri reyndar ekki fyrrum þingmaður heldur hefði hann verið kjörinn á þing aftur um leið og hann kom úr grjótinu og nei, hann ræki ekki grjótflutningafyrirtæki heldur héldi hann því fram að álfar byggju í steininum og þeir hefðu áhuga á að flytja til Eyja.

icelandic_elvesGesturinn varð fyrst dálítið skrýtinn á svipinn en sagði svo að það væri kannski eðlilegt að fjölmiðlar sýndu því áhuga þegar þingmenn töpuðu glórunni. Ég sagði honum þá að Ríkissjónvarpið hefði alls ekki fjallað um málið út frá því sjónarhorni, heldur stæðu deilur um það hvort álfarnir væru í raun sáttir við flutninginn. Þannig héldi skólastjóri álfaskólans því fram að álfarnir væru líklegir til að hefna sín og hann hefði áhyggjur af því að þingmaðurinn yrði fyrir óvæntu slysi.

Af svipnum að dæma var gesturinn farinn að velta því fyrir sér hvort ég væri að grilla í honum eða hvort ég væri í alvörunni svo vitlaus að finna athyglissýki minni þennan farveg. Hann hefur sennilega ætlað að loka umræðunni snyrtilega, því hann hló kurteislega og sagði;
„Jæja, það er allavega ágætt að skólastjórinn er ekki þingmaður líka, þetta gæti orðið heilmikið átakamál í þinginu.“
„Rétt til getið,“ sagði ég. „Skólastjóri álfaskólans er ekki þingmaður. Hann er bróðir utanríkisráðherra.“

Gesturinn horfði rannsakandi á okkur Eynar til skiptis. Spurði svo hvort við hefðum verið að horfa á Borat.