Þvaglátaeftirlit ríkisins

Fimmtán manns kærðir fyrir að pissa í miðbænum. Hversu margir ætli hafi þá sloppið?

Víst er að hér er ekki aðeins um að ræða umfangsmikið vandamál, heldur einnig vannýtta tekjulind. Einhvernveginn þarf að fjármagna þessi störf lögreglunnar sem eflaust hefur í ýmsu öðru að snúast, auk þess sem hlandstækjan truflar að líkindum næmt þefskyn þeirra lögregluþjóna sem gerðir eru út af örkinni til þess að hnusa eftir kannabisræktun. Auðvitað mætti koma á sérstökum hlandskatti en þar sem margir kasta aldrei af sér vatni á almannafæri væri það varla sanngjarnt. Það væri hinsvegar bæði hægt að auka tekjur ríkissjóðs stórlega og jafnframt skapa mörg störf með því að koma á sérstöku þvaglátaeftirliti.

Skikka þarf alla borgara til að skila inn þvagsýni við 15 ára aldur. Ráða svo sérstakt fólk, svokallaða hlandverði, til að fara með þvagleitartæki um bæinn á morgnana. Einnig þarf að koma á sérstakri þvaggreiningarstöð, þar sem hver pissupollur er rakinn til brotamannsins  og senda fólki einfaldlega sektarmiða, líkt og stöðumælasektir.

One thought on “Þvaglátaeftirlit ríkisins

  1. ———————————

    Eyjólfur

    Á grunnskólareunioni fyrir nokkrum árum mætti gamall bekkjarfélagi með glóðarauga, sú manngerð sem alla ólíklegast er að lendi í nokkurs konar veseni. Téð reunion fór fram u.þ.b. viku eftir að fréttir af fyrstu þvaglátsrassíunum höfðu farið hátt í fjölmiðlum. Þetta varð til þess að kunninginn vandaði sig mjög við að finna afvikið skúmaskot til að létta á sér. Hvað gerðist þar? Jú, hann var rændur!

    ———————————
    Gutti

    Eitthvað segir mér að þetta sé ofbeldi kvenna í áhrifastöðum gegn karlmönnum því mig grunar að flestir, ef ekki allir þeirra sem létta sér á almannafæri eru karlmenn

    ———————————
    eva

    Mér finnst þetta hinsvegar fáránleg lausn á vandamáli. Fólk mun ekki hætta við að pissa þegar því er mál, heldur bara bregða sér inn á einkalóðir eða bak við ruslatunnur. Kannski vantar fleiri almenningssalerni og kannski þarf hreinlega að kynna þau betur. Ég hugsa að auglýsingaherferð, þar sem fólk væri minnt á að létta á sér áður en það fer út af öldurhúsum, myndi skila meiri árangri en sektir.

    ———————————
    G

    Lögreglan er svo fjársvelt eftir því sem þeir sjálfir segja, að ekki eru tök á að fara í alvarlegri glæpi.

    ———————————
    aron

    mér finnst nú bara fínt að það sé að vera að sekta þetta fólk, bý ekki langt frá því þar sem þú varst með nornabúðina þína og það er mjög vinsælt að pissa á húsin okkar hér nálægt miðbænum, en eflaust myndi þér finnast brakandi ferskur hlandfnykur við inngang búðar þinnar það besta við að starta nýjum degi rækir þú enn búðina, þetta er eins og kaffi-ilmur hreinlega mmmm… takk áfengissturtandi pissudúkkur.

    ———————————

    Eiríkur Örn

    Þetta hefur verið gert við hunda í vissum íbúðahverfum í Bandaríkjunum. Sérstaklega „gated communities“. Það er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þessu, ég man ekki hvað það heitir. Þá eru hundarnir altso DNA-prófaðir – og svo þegar það finnst skítur er hann greindur og eigandinn sektaður.

Lokað er á athugasemdir.