Spegill

Elías: Ég held að ég viti hvað triggerar þetta karlhatur í þér.

Eva: Nú?

Elías: Ég þekki þig sennilega betur en nokkur annar og ég sé mynstur. Held ég.

Eva: Jæja, og ætlarðu að segja mér?

Elías: Kannski. Ef þú verður ekki örg yfir því að ég sé að sálgreina þig.

Eva: Ég verð náttúrulega pirruð ef þú bullar. Já og ok, ég verð sennilega líka pirruð ef kemur í ljós að þú veist eitthvað um mig sem ég vissi ekki sjálf, en ég skal ekki láta það bitna á þér.

Elías: Sko, ég held að þú verðir svona reið yfir tilvist okkar, af því að þú hefur aldrei tekist á við ákveðnar tilfinningar. Þær mara innra með þér og þegar eitthvað verður til þess að vekja þær upp, þá þrífur þú sverðið og ætlar að höggva þær í herðar niður. En það tekst ekki því sverðið er bitlaust. Þú ert bara að reyna að berja þær í hel með járnstöng og fyrr eða síðar ranka þær úr rotinu og byrja að angra þig aftur.

Eva: Með fullri virðingu, þá er þetta nú bara of bjánleg kenning til að taki því að ergja sig á henni. Mér gengur almennt frekar vel að takast á við tilfinningar ef eitthvað er.

Elías: Sumar tilfinningar já. Ótta, pottþétt og reiði, afbrýðisemi, kvíða, örugglega fullt af tilfinningum sem ég kann ekki einu sinni að nefna. Þú tekst m.a.s. reglulega á við þessa andúð þína á karlkyninu en þú ert ekki að glíma við rótina og þessvegna blossar þetta alltaf upp aftur. Eins og ég sé það, þá tekstu alveg á við tilfinningar sem er hægt að rökræða við. Ótta, reiði, allt sem á sér rökréttar skýringar. Þú getur t.d. lagt kalt mat á það hversu mikil ástæða sé til að hræðast eitthvað og ákveðið hvernig þú ætlar að bregðast við. En þegar þú stendur frammi fyrir tilfinningum sem stríða gegn skynsemi þinni, þá ertu bara lost.

Eva: Þetta hljómar voða gáfulega en vandamálið er bara að karlfyrirlitning stríðir einmitt ekki gegn skynsemi minni. Ótti gerir það, af því að venjulega er það versta sem getur gerst, alls ekki svo hræðilegt. Reiði er viðbragð við særðri réttlætiskennd og maður kemst yfir hana þegar maður viðurkennir að réttlæti er óraunhæf krafa. En ég fæ allar mínar neikvæðu hugmyndir um karlmenn staðfestar reglulega og mér finnst það slæmt en ekki órökrétt.

Elías: Kveikjan að þessari tilfinningu hlýðir ekki rökum. Ótti er rökréttur af því að þú veist að eitthvað slæmt getur gerst. Hann hverfur þegar þú ert búin að ákveða hvernig þú ætlir að koma í veg fyrir það. Og reiðin í þér hverfur heldur ekkert fyrr en þú ert búin að finna leið til að ná fram allavega einhverju smávegis réttlæti. En þú tekst ekki á við það sem þér finnst órökrétt. Ef þú verður ástfangin og sérð ekki skynsemi í því, þá bara þvingarðu sjálfa þig að hugsa um einhvern annan. Karamellu hvað Eva? Er þessi með karamellurnar praktískari kostur? Á hann börn og reykir ekki eða eitthvað svoleiðis? Þú leyfir þér ekki að elska neinn nema það sé rökrétt. Og ef þú verður fyrir sorg, þá ferðu ekki í gegnum hana, heldur segir sjálfri þér að þú hafir enga rökrétta ástæðu til að syrgja og heldur þér svo upptekinni við eitthvað annað í nokkrar vikur. En sársaukinn er þarna enn og þegar hann vaknar, þegar þú finnur þessa ósköp eðlilegu þörf fyrir ást, þá reynirðu að ýta henni frá þér með því að finna rökrétta ástæðu til að vilja hana ekki. Og þar sem karlmenn eru ófullkomnir og á allan hátt órökrétt að vilja neitt með okkur hafa, þá sekkurðu þér í hrókasamræður við sjálfa þig um það hversu heimskulegt það sé að þrá okkur samt. 

Eva: Þú ert nú að gera heldur mikið úr þessu skoti. Mig langar bara að sofa hjá honum. Eða einhverjum. Held að það sé ekkert þessvegna sem mér finnst karlmaðurinn sem konsept frekar misheppnað fyrirbæri og ef út í það er farið þá langaði mig líka að sofa hjá einhverjum í desember en ég ver ekkert að velta mér upp úr óheilbrigðum viðhorfum þá. Og ég hef enga óuppgerða sorg á bakinu heldur.

Elías: Eva, þú afgreiddir flugmanninn á tveimur dögum. Það sem meira er, þú varst rosalega sátt við hann af því að hann gaf þér rökrétta skýringu. Rökrétta, pældu í því! Þú reyndir að rökræða þig frá ástarsorg!

Eva: Uhh… Það tókst!

Elías: Já, tókst það virkilega?

Og þá leit ég á klukkuna og sá að ég þurfti að fara að koma mér á fætur.