-Þú mátt það ekki, sagði kóngurinn.
-Nei, það máttu ekki, át drottningin upp eftir honum.
-Það er hættulegt fyrir ungar prinsessur, sagði kóngurinn
-Já, það er nefnilega stórhættulegt, sagði drottningin.
En mærin kærði sig kollótta og gerði það samt.
Hún hafði verið þæg, lítil telpa en nú var hún orðin býsna stór og var búin að átta sig á því að sumt sem foreldarar hennar töldu hættulegt ungum stúlkum, var í raun ekkert sérlega líklegt til að skaða hana. Hún hafði ekki ennþá rekið fingurinn í heilann við að bora í nefið og þó gerði hún það oft, hún lét bara ekki aðra sjá það. Fingur hennar höfðu ekki stirðnað og orðið líkastir eldspýtum þótt hún vanrækti píanóæfingarnar og hefði ekki saumað eitt spor í heila 9 daga á meðan drottningin var á ferðalagi til að bæta ímynd lands og þjóðar í nágrannaríkjunum. Sjón hennar hafði heldur ekki hrakað þótt hún sofnaði ekki með hendurnar ofan á sænginni og hún hafði ekki fengið garnaflækju af því að þiggja trjákvoðu af hirðmeyjunum. Hún hafði m.a.s. drukkið sig ölvaða af kirsiberjavíni með hinum hjárænulega syni ekilsins, og það hafði ekki orðið til þess að hún fengi svartagallseitrun eða ældi innyflum og hafði hún þó ælt heilan helling, aðallega gulu galli en ekki einum dropa af svörtu. Reyndar höfðu foreldrar hennar ekki komist að því, því ekillinn sem óttaðist að missa vinnuna, hafði borið hana upp til dyngju sinnar og elskulega, gamla fóstran hennar, sem þvoði æluna út fötum hennar, sagði konungnum að hún væri með magapest. Svo snupraði hún stúlkuna og hótaði henni skammarkróknum og vendinum ef hún fyndi hana í sama ástandi aftur. Sonur ekilsins hafði reyndar forðast hana síðan en alvarlegri höfðu afleiðingarnar af þessu fylliríi ekki orðið.
Í dag fer ég upp í turninn hugsaði stúlkan, þrátt fyrir að konungurinn væri margbúinn að banna það og ekki dró bergmál drottningarinnar úr henni heldur. Þetta var fyrsti dagur sumars og það var kátt í höllinni, því drottningin taldi að ánægt hirðfólk sýndi henni meiri hollustu. Hirðin var því að skemmta sér í annarri álmu að undanskildum tveimur kerlingum, ráðskonunni og fóstru prinsessunnar sem báðar höfðust við í álmu konungsfjölskyldunnar. Kóngurinn var á ríkisráðsfundi, því óvinaþjóðir láta tyllidaga ekkert trufla hernaðaráform sín. Drottningin þurfti að láta sjá sig á einhverri góðgerðasamkomu, enda miklu ódýrara fyrir konungsríkið að stinga nokkrum krónum í ölmususjóð kirkjunnar en að halda eymingjum uppi. Kerlingarnar tvær yrðu ekki vandamál. Fóstra hennar afgömul var orðin svo mikið hró að hún svaf stóran hluta eftirmiðdagsins og ráðskonan var utan við sig og skildi lyklahringinn iðulega eftir á glámbekk. Hún gat auðveldlega sloppið fram hjá þessum tveimur kerlingum en hugsanlega fengi hún aldrei slíkt tækifæri framar.
Á meðan fóstra hennar blundaði, narraði hún ráðskonuna til að setja upp nýja svuntu „í tilefni sumarsins“ og tókst þannig að fá hana til að leggja lyklahringinn frá sér. Hún þekkti þann rétta og náði honum af hringnum á meðan ráðskonan dáðist að nýju svuntunni. Hún hafði eiginlega ætlað að geyma nýju svuntuna fram að Jónsmessu en eins og telpan sagði var engan veginn hægt að útiloka að hún yrði þá dauð eða stríð skollið á og lítið um hátíðahöld, svo hún lét til leiðast. Stúlkan hældi svuntunni á hvert reipi en sagðist svo ætla að ganga til dyngju sinnar og sinna hannyrðum. Það taldi ráðskonan þroskamerki en hún hafði allt eins reiknað með að þurfa að reka hana til þess, enda varla hægt að leggja það á fóstruna lengur að halda þessum letihaug að verki.
En dóttir konungsins settist ekki við sauma. Þess í stað læddist hún hringstigann, upp í hæsta turn hallarinnar, sem af ástæðum sem hún hafði aldrei fengið skýringu á, var henni forboðinn með öllu. Hún hafði beðið þessa dags með óþreyju og líklega búist við að finna dularfullt leyndarmál. Hugsanlega hryllilegt líka. En það var ekkert áhugavert í þessum turnherbergjum, aðallega gömul húsgögn og annað drasl, þakið kóngulóarvef og ryki. Hún var vonsvikin. Það var ekki fyrr en hún kom upp á efsta stigapallinn sem hún kom loks að læstri hurð og ekki nóg með að hurðin væri læst, heldur barst taktfast hljóð að innan. Hjarta hennar tók aukaslag og hún beygði sig niður að skráargatinu og gægðist inn.
Hún sá hjól snúast. Líklega rokkur hugsaði hún en þessháttar tól hafði hún aðeins séð á myndum. Hún vissi að rokkar voru stórhættulegir. Maður gat stungið sig á snældunni og fengið blóðeitrun. Það gat leitt til dauða, eða allavega langvarandi dásvefns. Já, spunarokkar voru sannarlega viðsjárverðir fyrir ungar prinsessur en hún kunni vel við hið viðsjárverða, svo hún stakk lyklinum í skrána og hélt niðrí sér andanum á meðan hún sneri honum.
Hurðin hrökk upp með lágum smelli. Fyrir innan sat kerling og steig rokk. Ullarkambar lágu í körfu við hlið hennar og upp við vegginn gegnt glugganum stóð vefstóll. Gamla konan leit ekki upp en bauð samt góðan daginn, rétt eins og dóttir konungshjónanna væri daglegur gestur í kytru hennar.
Stúlkan horfði á hana um stund og hún var heilluð. Henni þótti eitthvað svo hrífandi við að sjá hjólið snúast og hvíta ullina verða að grönnum þræði. Henni fannst snúðurinn og snældan minna á dansandi brúðhjón og sólin skein inn um gluggann og baðaði þau geislum sínum.
-Er þetta erfitt? spurði stúlkan loks.
-Nei, ekki beint erfitt. Þetta getur orðið þreytandi og það er svekkjandi ef manni verður það á toga of fast og slíta þráðinn. Það tefur mann nefnilega. En erfitt, nei, það get ég ekki sagt.
-En þetta er hættulegt, er það ekki?
-Nei, svaraði sú gamla og hló við. Ekki nema þú teljir það ógurlega áhættu að ákveða sjálf hvernig klæðið í kjólana þína verður útlits og viðkomu.
-Getur maður ráðið því? spurði stúlkan forviða.
-Að því marki sem maður hefur rétt hráefni og rétt verkfæri, já. Það eiga ekki allar stúlkur kost á að þínum aðstæðum en ef þú ert með góða ull, er þykkt og áferð klæðisins undir því komin hvernig hún er unnin. Hvernig ullin er kembd, hvernig rokkurinn er stiginn og vefurinn sleginn. Og svo geturðu litað klæðið með þeim jurtum sem þér sjálfri líst best.
Enda þótt prinsessan ætti fleiri og fegurri kjóla en nokkur önnur stúlka í ríkinu, þótti henni það svo heillandi hugmynd að geta stjórnað því sjálf hvernig klæði hún fengi í kjólinn sinn, að hún bað um að fá að reyna. Hún settist við rokkinn og nei það var satt, það var ekki rassgat erfitt og hún stakk sig ekkert á snældunni.
Hún ákvað að ná tökum á listinni að spinna en til að fá frið til þess, þurfti hún að forðast vökul augu foreldra sinna og hirðarinnar og það er nú ekki alltaf kátt í höllinni. Lausina á því vandamáli fékk hún einnig hjá spunakonunni. Hún sagði henni að þyrnirósagerðið sem umlyki hallargarðinn væri til margra hluta nytsamlegt. Þyrnarnir innihéldu dálítið af sljóvgandi efnum og með því að sjóða af þeim seyði, mætti auðveldlega svæfa alla hirðina. Og prinsessan klippti rósir til að skreyta dyngju sína, því prinsessur mega gjarnan tína blóm, en þyrnana geymdi hún og laumaði þeim út í súpuna.
Hirðin varð sljó og löt. Varðmenn sofnuðu á vaktinni, píanókennarinn hætti að halda henni að æfingum og fóstran hennar gamla varð hálf rænulaus, jafnvel þann tíma sem hún á annað borð vakti. Drottningin tók upp á því að sofa til hádegis og kóngurinn hékk tímunum saman yfir skák og hafði engar áhyggjur af dóttur sinni í allri þessari friðsemd sem ríkti í höllinni. En á meðan hirðin svaf, vandi stúlkan komur sínar upp í turninn. Hún náði fljótt tökum á spunanum og á örfáum vikum lærði hún einnig að kemba, vefa og sjóða lög af jurtum til að lita klæðið.
Fyrsti klæðisstranginn sem hún lauk við, var langt frá því að vera fullkominn. Það voru á honum hnökrar og liturinn var ójafn. Reyndar hafði saumakonan aldrei séð ljótara klæði notað í konunglegan kjól og spurði í hvaða fátækrahverfi hún hefði grafið þennan hrylling upp en prinsessunni var sama. Hún hafði sjálf spunnið ullina og ofið klæðið og vissi nú orðið að eina hættan sem í því fólst, var möguleikinn á því að einhver teldi útkomuna ekki hæfa prinsessu.
Hún klæddist kjól úr sínum eigin vefnaði þegar prinsinn kom til að biðja um hönd hennar. Þar sem garðyrkjumaðurinn hafði sofið lungann úr sumrinu var þyrnigerðið úr sér vaxið. Það hafði breitt úr sér og vafið sig utan um öll hlið inn í hallargarðinn, svo eina leiðin fyrir prinsinn til að komast að höllinni, var að höggva sér leið inn. Hann brá sverði sínu á loft og hjó rósagerðið á báða bóga svo rauð blómin féllu til jarðar. Úr fjarlægð var þetta tilkomumikil sjón, líkast því sem hann stæði í orystu á blóði drifinni jörð.
Að lokum taldi hann nóg höggvið. Hann settist á bak hesti sínum og reið inn um opið á blóðrauðu þyrnigerðinu. Hann rispaði sig á þyrnum og reif klæði sín og einn þyrnir stakkst í vörina á honum. Hann skeytti því engu því hann hafði náð markmiði sínu. Já, þarna fyrir innan þyrnigerðirð stóð höllin og þar lá prinsessan í dyngju sinni og beið hans, eða svo sagði sagan af hinni sofandi höll.
Það var enginn í höllinni með nægilegri rænu til að veita honum þær móttökur sem hann átti að venjast svo hann gekk óboðinn inn og leitaði að dyngju kóngsdótturinnar. Hann fann hana liggjandi í bælinu um miðjan dag, en hún svaf ekki, heldur lá hún þar fullklædd, og í þetta sinn allavega með hendurnar ofan á sænginni. Þrátt fyrir fegurð stúlkunnar brá prinsinum nokkuð í brún þegar hann sá á henni útganginn. Hún var í kjól úr mislitu klæði og hnökruðu og ekki að sjá að hún skammaðist sín hið minnsta. Hann gekk samt til hennar, tyllti sér á rúmstokkinn og þrýsti kossi á hönd hennar, eins og prinsum er tamt. Þá reis hún upp og bað hann að slíðra sverðið. Lagði svo varir sínar að vörum hans. Hann fann fyrir dálitlum sviða í vörinni þegar hún læsti tönnum sínum í enda þyrnisins og beit hann úr blóðríku holdinu. Hann fann sætt bragð af eigin blóði blandast ilmi stúlkunnar. Svo fann hann svefninn færast yfir sig.
Klæði hins unga konungssonar voru rifin en það gerði ekkert til. Nú þekkti hann konu sem kunni bæði að spinna og bíta honum svenþorn úr vör. Hann svaf lengi og á meðan hann svaf fór stúlkan upp í turnherbergið. Hún spann honum þráð, hún sló honum vef og að endingu safnaði hún saman rósunum sem hann hafði höggvið og litaði klæðið rósrautt. Og þar sem hún hafði þegar fengið tækifæri til að æfa sig, varð það hið fegursta klæði.