Oh!

Rassgat og alnæmi!

Ég var að spjalla við svo huggulegan og skemmtilegan mann sem ég rakst á á einni af stefnumótasíðunum á facebook. Hefði alveg viljað hitta hann en álpaðist til að skoða prófílsíðuna hans og komst þá að því að þótt hann sé skráður einhleypur á stefnumótasíðunni, er hann kvæntur samkvæmt aðal prófílnum. Ok, hugsanlega var prófíllinn eldgamall svo ég spurði hann, og jú það stendur heima að hann er víst pínulítið kvæntur ennþá.

Ég fór í gegnum alla Íslendinga sem ég sé að hafa klikkað á mig á þessum síðum og þetta er ekkert sá eini sem er frátekinn samkvæmt facebook prófílnum. Ætli þessir menn séu svo vitlausir að halda að komist ekkert upp um þá þótt þeir gefi misvísandi upplýsingar um sjálfa sig, með fullu nafni og mynd, eða er þeim bara alveg sama?

Tónskáldið mátti ekkert vera að því að hitta mig eftir allt saman. Skítt með það. Áreiðanlegir listamenn eru einkar sjaldgæft fyrirbæri.

Stundum verð ég mjög þreytt á karlkyninu. Suma daga efast ég um að heiðarlegir menn séu yfirhöfuð til. Það hefur samt ekki ennþá komið fyrir mig að vakna að morgni og finna ekki til nokkurs áhuga á samneyti við þessar óáreiðanlegu og órökvísu lífverur. Þeir eru bara eitthvað svo heillandi, þrátt fyrir allt.

One thought on “Oh!

  1. ———————————–

    hei, ég er áreiðanleg!

    Posted by: hildigunnur | 4.06.2008 | 11:59:12

    ———————————–

    Ok! Viltu giftast mér?

    Posted by: Eva | 4.06.2008 | 15:49:09

Lokað er á athugasemdir.